149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[19:25]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Það er víst að kjör aldraðra verða heldur ekki bætt með útúrsnúningum. Ég ætla bara að áminna hæstv. ráðherra um að þær tillögur sem Miðflokkurinn hefur komið fram með og kom fram með í fjárlagaumræðunni í fyrra voru að fullu fjármagnaðar. Þar var ekki um neina útgjaldaaukningu að ræða en að sjálfsögðu lögðum við til og höfum lagt til að félagsleg aðstoð sé aukin eins og hægt er.

Ég var nú svo sem ánægður með að hæstv. ráðherra byrjaði á að svara spurningu sem ég var ekki búinn að bera upp, sem er út af fyrir sig ágætt. Hann svaraði henni reyndar rangt. — Og mér þætti vænt um ef hann sýndi mér athygli.

Varðandi öryrkja er út af fyrir sig það sama uppi á teningnum. Þar heykist ríkisstjórnin á að afnema það sem kallað er króna á móti krónu skerðing og er mjög ósanngjörn. En hæstv. ráðherra boðar hér að í gangi sé eitthvert viðtal við öryrkja. Það er rétt sem hæstv. ráðherra segir að nefnd sú sem ég stýrði undir lokin var komin með mjög góðan grunn varðandi starfsgetumat. Það er hægt að vinna mjög vel á þeim grunni og það er hægt að vinna mjög hratt á þeim grunni. Það er í sjálfu sér ekki eftir neinu að bíða.

Þess vegna hnykkti mér við að í þessu fjárlagafrumvarpi eða fylgiritinu á bls. 93 segir að ekki eigi að setja krónu í VIRK eða aðra endurhæfingu eða slíkt til að örva fólk aftur til vinnu. Það er náttúrlega nauðsynlegur hluti þess þegar menn gera starfsgetumat, þá verða menn líka að tryggja að til séu hlutastörf við hæfi fyrir það góða fólk sem búið er að endurhæfa og virkja að nýju þannig að það komi ekki að lokuðum dyrum þegar búið er að vekja vonir með því. Ríkisstjórnin skilar minna en auðu því að dregið er saman um 200.000 kr. framlög til VIRK í þessu frumvarpi. Það er skömm að því.