149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[19:27]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Örlítið varðandi tekjur eldri borgara og örorkulífeyris. Ég má til með að lesa upp kafla á bls. 126 í þessu ágæta fjárlagafrumvarpi. Þar stendur:

„Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að prósentuhækkun bóta almannatrygginga, þ.e. elli- og örorkulífeyris ásamt bóta samkvæmt lögum um félagslega aðstoð, verði 3,4% frá og með 1. janúar 2019. Hækkun bótanna tekur mið af spá Hagstofu Íslands um þróun vísitölu neysluverðs að viðbættri 0,5% kaupmáttaraukningu.“

Þannig að það er aukning inni … (Gripið fram í.) — Nei, kaupmáttaraukningu. En eins og ég sagði áðan við hv. þingmann erum við að einbeita okkur að því sem snýr að örorkulífeyrisþegum og ætlum okkur að klára starfsgetumat og koma því inn í þingið.

Mér finnst hv. þingmaður eiginlega vera kominn í hring núna vegna þess að akkúrat í sambærilegri umræðu fyrr á þessu ári sagði hv. þingmaður að hann vissi það mikið um innleiðingu starfsgetumats og annað að aldrei yrði hægt að ljúka þeirri vinnu og koma með frumvarp um það innan eins árs, hann lét að því liggja. Nú segir hv. þingmaður að hægt sé að gera það hratt og vel, og ég veit að við erum sammála um það, ég og hv. þingmaður. (Gripið fram í.) Hins vegar mun taka við innleiðingartími þegar slíkt frumvarp kemur fram og ég sagði það í upphafsræðu minni. Að sjálfsögðu munum við á þeim innleiðingartíma og þegar frumvarpið kemur fram gera ráð fyrir því hvernig við getum styrkt alla umgjörð í kringum starfsgetumat, ekki bara VIRK, heldur líka Vinnumálastofnun.

Hvernig getum við byggt upp kerfi með atvinnulífinu til þess að fjölga störfum fyrir þá sem á því þurfa að halda í tengslum við starfsgetumat? Öll sú vinna verður unnin samhliða á innleiðingartímanum. Ég sagði það skýrt áðan og það liggur algjörlega ljóst fyrir að ríkisstjórnin er að einbeita sér að örorkulífeyrisþegum, (Gripið fram í.) aukningu bóta þar, það er aukning núna á þessu ári um 4 milljarða í frumvarpinu, það þarf meira til. (Gripið fram í.) — Já, það hef ég sagt opinberlega. Það hef ég sagt við hagsmunasamtök örorkulífeyrisþega og fleiri aðila. En það á að styðjast við starfsgetumatið sem hv. þingmaður talar um að sé hægt að gera hratt og vel. Það er einmitt það sem ríkisstjórnin ætlar að gera og það er einmitt það sem hv. þingmaður mun sjá að verður gert.