149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[19:30]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Frú forseti. Þau voru áhugaverð, orðaskiptin á milli hæstv. ráðherra og míns góða vinar, hv. þm. Þorsteins Sæmundssonar. Ég ætla kannski ekki að blanda mér alveg inn í þær umræður, en það er þó ánægjulegt að vita að það er verið að slá í klárinn þegar kemur að endurskoðun tryggingakerfis öryrkja. Ég á von á því að við sameinumst um það þegar frumvarpið kemur fram að um það náist góð sátt og kannski þær breytingar sem við þurfum að gera. Ég geri ráð fyrir því að það verði ýmislegt sem við viljum kannski skoða betur og gera breytingar á, en við reynum að gefa sjálfum okkur og ekki síst öryrkjum það loforð að við brettum upp ermar í þeim efnum.

Ég ætla hins vegar aðeins að eiga orðastað við hæstv. ráðherra sem tengist endurskoðun á tekjuskattskerfinu og bótakerfinu. Það er auðvitað samvinnuverkefni milli fjármálaráðuneytisins og velferðarráðuneytisins, þ.e. félagsmálaráðuneytisins, það er m.a. verið að endurskoða barnabótakerfið, sem er auðvitað á ábyrgð hæstv. fjármálaráðherra, til einföldunar í tengslum við heildarendurskoðun á tekjuskatti einstaklinga. En að þessu verki kemur hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra. Ég vil inna hann eftir því (Forseti hringir.) hvaða sjónarmiðum hann kemur á framfæri, hvernig vinnunni miðar og hvenær við megum (Forseti hringir.) sjá eitthvað birtast opinberlega þannig að við áttum okkur á hvert þetta kerfi er að þróast.