149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[19:39]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Ég er ekki frá því að hv. þm. Óli Björn Kárason hafi verið að tala um ágæti borgaralauna hér rétt áðan í pontu, eða neikvæðan tekjuskatt, eins og Milton Friedman kallar það, sem er sami hluturinn.

Ég ætla að fara beint í spurningar til ráðherra. Samkvæmt þingmálaskrá er áætlað að frumvarp til laga um starfsendurhæfingu og greiðslur vegna skertrar starfsgetu, eða það sem kallast starfsgetumat, komi á dagskrá þingsins í október. Mig langar að spyrja ráðherra hvort komin sé einhver niðurstaða úr vinnu nefndarinnar sem var falið að fjalla um starfsgetumatið og ef svo er hvort sátt ríki um þá niðurstöðu. Ég skil ekki alveg hvernig ráðherra ætlar að hafa tíma til að klára þingmálið og koma því á dagskrá þingsins í næsta mánuði ef nefndin hefur ekki skilað af sér, sem mér skilst að hafi ekki verið búið, alla vega ekki í gær. Er vinna við frumvarpið kannski hafin?

Einnig langar mig að spyrja ráðherra út í afnám krónu á móti krónu skerðingar örorkulífeyrisþega, en krafan um að afnema þær skerðingar er mjög hávær og skiljanlega þar sem öryrkjar hafa þurft að sæta mismunun í þessum efnum í dágóðan tíma því að ellilífeyrisþegar losnuðu við þetta böl árið 2016.

Í kaflanum um bætur samkvæmt lögum um almannatryggingar kemur fram að koma eigi í veg fyrir víxlverkanir í samspili örorkubóta almannatrygginga og örorkulífeyris lífeyrissjóða. Er þarna ætlunin að afnema þessar skerðingar? Ef svo er, með hvaða hætti? Hvað mun það kosta og hvaðan kemur fjármagnið?

Í kafla 27, sem fjallar um örorku og málefni fatlaðs fólks, er minnst á 4 milljarða í framlag vegna kerfisbreytinga í almannatryggingum til að bæta kjör öryrkja. Í hvað verða þeir fjármunir nýttir?

Svo spyr ég að lokum: Mun ráðherra koma kostnaðargreiningu til þingmanna og nefnda svo við getum gert okkur grein fyrir því hve mikið fjármagn fer í hverja aðgerð og þannig tekið upplýsta afstöðu til fjárlaga? Ég spurði hæstv. heilbrigðisráðherra sömu spurningar í dag og fékk reyndar ekki svör. Ég á við að einhver kostnaðargreining á aðgerðunum komi fram. Þar er listi af aðgerðum undir hverju markmiði. Það er engin leið (Forseti hringir.) að sjá hve mikið fjármagn fer í hverja aðgerð. Það væri mjög gagnlegt að fá að vita hvernig verið er að hugsa þetta.

Einnig langar mig bara til þess að skjóta mjög fljótt varðandi (Forseti hringir.) heildræna nálgun þar sem aðgerðir eru samræmdar þvert yfir málasvið ráðherra. Mig langar til að heyra dálítið í ráðherra (Forseti hringir.) hvort það sé eitthvað sem hann hefur hugsað um þegar kemur að mikilvægum málaflokkum, eins og tvíþættur vandi sem fellur undir tvö ráðuneyti.