149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[19:42]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Það liggur ljóst fyrir að mikill kraftur hefur verið í starfi þessarar nefndar. Ég held að það sé óhætt að segja það, án þess að ég sé að tjá mig um það sem gerist þar, að menn séu komnir mjög nálægt því að vera á sömu blaðsíðu um grundvallaruppbyggingu kerfisins, hvernig manngangurinn á að virka í því o.s.frv. Um það snýr frumvarpsgerðin að stórum hluta þannig að það á að vera mögulegt að leggja þetta frumvarp fram í október. Það er alla vega stefna þess sem hér stendur að gera það.

Hvað varðar fjárveitingarnar sem koma þarna inn, aukningar á einstaka liði, víxlverkanir o.s.frv., þarf það svo að koma samhliða. En ég geri fastlega ráð fyrir að það verði kannski meiri pólitísk umræða um nákvæmlega þann þátt en um uppbyggingu kerfisins sjálfs.

Síðan vil ég ítreka það sem ég sagði hér áðan, að gert er ráð fyrir því að innleiðingin á þessu gerist ekki 1. janúar. Gert er ráð fyrir því að við þurfum tíma til að aðlaga okkur við innleiðingu á þessu og sérstaklega fá atvinnurekendur og opinbera kerfið til að koma með inn í það, undirbúa Vinnumálastofnun, undirbúa VIRK, heilbrigðiskerfið og alla þá aðila sem þurfa að koma að því.

Þeir 4 milljarðar sem eru í frumvarpinu nú — gert er ráð fyrir að þeir verði nýttir á þann veg að þeir styðji við þá hugsun sem verði í nýja kerfinu. Ég hef þegar rætt það við Öryrkjabandalagið, við Þroskahjálp og aðra aðila að koma að því að vinna það hvernig við munum ráðstafa þessum 4 milljörðum samhliða því sem þessari vinnu lýkur. Mér finnst trúlegt, miðað við þær umræður sem þar hafa átt sér stað, að það verði einmitt í þá veru að (Forseti hringir.) draga úr krónu á móti krónu skerðingunum og öðrum þeim þáttum sem koma sér verst fyrir þá einstaklinga sem verst hafa kjörin í þessum hóp. Síðan þurfum við meiri aukningar. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni.