149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[19:47]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Ef ég legg saman þær spurningar sem ég átti ósvarað áðan reiknast mér til að ég eigi eftir að svara átta spurningum á 1,50 mín. (Gripið fram í: Byrjaðu! Byrjaðu!) þannig að ég ætla bara að byrja strax.

Ég ætla að byrja á því sem hv. þingmaður kom inn á hér áðan og sneri að tvíþættum vanda og í raun hvernig kerfi geta unnið saman. Ég held að þar, sérstaklega gagnvart börnum, þurfum við að gera róttækar breytingar. Ég er að setja þverpólitíska nefnd í að skoða hvernig við getum brotið niður múarana í kerfunum, sérstaklega þegar kemur að tvíþættum vanda, þ.e. þegar sækja þarf þjónustu til fleiri en eins aðila innan ríkiskerfisins og jafnvel innan sveitarfélaganna líka. Sú vinna er farin af stað.

Varðandi hækkun greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði er ríkisstjórnin með það á stefnuskrá sinni að hækka greiðslur í fæðingarorlofi og lengja fæðingarorlof. Við erum nú annað árið í röð að stíga skref til þess að hækka greiðslur í fæðingarorlofi. Það liggur ljóst fyrir að ríkisstjórnin hefur ekki einu sinni starfað í ár þannig að ég kalla það nokkuð gott að vera búin að ná öðru af þessum tveimur markmiðum. Við ætlum okkur að lengja greiðslur í fæðingarorlofi. Það eru nú þrjú ár eftir af þessu kjörtímabili. Þá þurfum við einmitt að skoða ýmsar aðrar breytingar varðandi fæðingarorlofskerfið vegna þess að það eru ýmis smáatriði sem þarf að skoða í því sambandi og ekki síður gagnvart fæðingarstyrkskerfinu sem hefur verið til hliðar og hefur ekki þróast og þroskast með nægilega góðum hætti.

Varðandi húsnæðismálin höfum við undanfarið átt í mjög góðu samtali við bæði sveitarfélögin og verkalýðshreyfinguna. Í stefnuræðu hér í fyrrakvöld kom ég inn á róttækari nálgun á þau mál en við höfum verið að sjá. Það er ekki komin lending í það, en ég hef verið að kalla eftir því að menn hugsi þar út fyrir boxið, séu tilbúnir í róttækar aðgerðir á félagslegum grunni. Ég vænti þess að það samtal sem þar er í gangi við verkalýðshreyfinguna og sveitarfélögin (Forseti hringir.) geti af sér einhverja afurð.

Því miður er nokkrum spurningum ósvarað. Ég held að við þyrftum enn lengri tíma til að klára þær því að ég myndi svo gjarnan vilja svara þeim öllum.