149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[19:49]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Frú forseti. Við ræðum málaflokka hæstv. félags- og jafnréttismálaráðherra. Það er margt ágætt í þeim. Ég vil halda því til haga, sem hæstv. ráðherra hefur raunar gert líka, að það skiptir verulegu máli að verið er að bæta 4 milljörðum í málaflokkinn örorka og málefni fatlaðs fólks. Verið er að bæta 5 milljörðum í málefni aldraðra. Verið er að hækka barnabætur, auka framlög þar í um 15% og svo mætti lengi telja.

Þarna er alls ekki fullgert í neinum málaflokki enda eins og hæstv. ráðherra kom inn á erum við rétt að byrja. En svo ég leyfi mér að klappa hæstv. ráðherra á bakið, þetta gengur bara býsna vel.

Það er einn málaflokkur sem hæstv. ráðherra var byrjaður að ræða aðeins áðan sem ég vil ræða betur, þ.e. húsnæðismálin. Þar finnst mér a.m.k. að okkur mætti ganga betur. Ég hef talað fyrir því alllengi að við yrðum að fara að endurhugsa hugmyndafræðina á bak við húsnæðisstuðning, fara upp úr þessum hjólförum vaxtabóta sem í rauninni eru arfur af gömlu séreignarstefnunni sem var það eina sem menn gátu hugsað sér og yfir í það að markmið húsnæðisbótakerfisins eigi að vera að tryggja fólki þak yfir höfuðið, tryggja fólki öruggt húsaskjól. Það er hægt að gera með fleiri aðferðum en bara þeim að niðurgreiða vexti bankanna með vaxtabótum, sem vaxtabæturnar eru í raun og veru og gera bönkunum þess vegna að sumu leyti kleift að halda uppi vaxtastiginu á þessum lánum.