149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[19:51]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla að fara beint í húsnæðismálin og segja að ég held að það sé rétt hjá hv. þingmanni að við þurfum að nálgast þann málaflokk með öðrum hætti en við höfum gert. Við erum komin vel af stað gagnvart landsbyggðinni í þessu efni. Þar hefur verið sett af stað vinna við að taka upp aðgerðir að norskri fyrirmynd til að stuðla að uppbyggingu í hinum dreifðu byggðum vegna þess að það hefur látið á sér standa. Það er líka í vinnslu að stofna leigufélag á landsbyggðinni af hálfu Íbúðalánasjóðs til þess að nýta þær eignir sem þar eru til að byggja upp leigufélag og hvor tveggja þessara aðgerða er í mjög góðu samstarfi og samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga.

Gagnvart höfuðborgarsvæðinu þar sem lausn á vandanum er gríðarlega aðkallandi held ég að menn þurfi að hugsa þetta í miklu róttækari lausnum og miklu víðtækar en gert hefur verið með það að markmiði að byggja upp leigumarkað sem er raunverulega óhagnaðardrifinn. Við höfum verið að stíga tilraunaskref í því með almenna íbúðakerfinu, en ég held að við þurfum að koma miklu sterkar inn í það.

Við höfum að undanförnu verið að horfa til þess hvar það hefur gengið best á Norðurlöndunum. Það hefur m.a. verið í Finnlandi þar sem Helsinki er eina höfuðborgin á Norðurlöndunum þar sem húsnæðisverð hefur nánast haldist óbreytt á undanförnum árum. Af hverju er það? Það er hugsanlega vegna þess að í Helsinki leyfir ríkið sér í krafti húsnæðisstofnunar að stofna leigufélag sem er í eigu ríkisins og byggir upp leiguhúsnæði, ekki bara úti á landi og í dreifðum byggðum, heldur líka í höfuðborginni sjálfri. Vegna þess að húsnæðismálin eru velferðarmál. Það er gríðarlega mikilvægt að við hugsum það þannig.

Við erum að skoða það núna hvernig við getum eflt og aukið samstarf við Norðurlöndin til þess að læra af þeim hvernig hlutirnir eru gerðir, en við þurfum líka að fá sveitarfélögin með okkur og þurfum að hugsa svolítið víðar í því samhengi og hugsa kannski ekki eingöngu (Forseti hringir.) út frá Reykjavík, heldur nágrannasveitarfélögunum í kringum Reykjavík og höfuðborgarsvæðið. Það þarf róttæka uppbyggingu þar. (Forseti hringir.) Samtalið er í gangi bæði við Samband íslenskra sveitarfélaga og við verkalýðshreyfinguna. Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni (Forseti hringir.) um þá nálgun sem við þurfum að hafa í þeim efnum.

(Forseti (BHar): Forseti vill minna bæði hv. þingmenn og hæstv. ráðherra á að virða tímamörk.)