149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[19:56]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni, ég held eða vil a.m.k. vona að það skref sem stigið var þegar lög um almennar íbúðir voru samþykkt á Alþingi og sú vinna sem farið hefur fram í framhaldi af því hafi valdið kannski einhverri hugarfarsbreytingu, ekki bara hjá almenningi heldur líka innan stjórnkerfisins hvernig við eigum að nálgast húsnæðismálin. Í því sambandi held ég að við séum tilbúin núna til að stíga stærri og róttækari skref í því efni.

Það hefur verið rætt einmitt við þá aðila sem hv. þingmaður vitnar til, sveitarfélögin. Þar hefur farið fram samtal við Samband íslenskra sveitarfélaga. Ég hef líka átt fundi með forystumönnum í Reykjavík og Reykjavíkurborg um aðkomu að því. Og við Íbúðalánasjóð sem nýja húsnæðisstofnun. Eftir þær breytingar sem samþykktar voru á Alþingi á síðasta þingi er Íbúðalánasjóður að breytast miklu meira í raunverulega húsnæðisstofnun sem á að hafa afgerandi hlutverk á húsnæðismarkaðnum en ekki bara lánasjóður eins og hann var á sínum tíma. Ríkið á að geta komið virkar inn í þessi mál með það að markmiði að tengja saman þessa aðila og að ráðast í róttækari uppbyggingu í leiguhúsnæðismálum en við höfum séð.

Verkalýðshreyfingin hefur lýst miklum áhuga á að koma að slíku. Ég held að þetta verði næsta vetur, við sjáum það bara í umræðum um kjarasamninga, eitt af stóru málunum sem þar verða undir í samtali til hliðar við hin raunverulegu kjaramál hvernig við komum skikkan á húsnæðismálin hér á landi.

Það er margt sem við höfum gert vel á undanförnum árum. Við höfum verið að læra, en við erum tilbúin (Forseti hringir.) í stærri skref og eigum að undirbúa það að stíga þau.