149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[20:15]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Bara til þess að taka þennan seinni hluta þá fagna ég því að við séum komin með sjálfskipaðan eftirlitsmann með kosningaloforðum Framsóknarflokksins vegna þess að þá getur hv. þm. Þorsteinn Víglundsson bæst í hóp þeirra Miðflokksmanna sem þegar eru í þessu eftirliti hérna í þingsalnum, það er bara gott að fá fleiri til liðs við þá, vegna þess að mér hefur (ÞorstV: Kosningaloforð …) fundist þeir vera að dala eilítið upp á síðkastið. Það er gott fyrir þá að fá styrk frá hv. þm. Þorsteini Víglundssyni.

Það liggur auðvitað ljóst fyrir að skattkerfisbreytingar sem við viljum ráðast í, ríkisstjórnin, eru breytingar sem miða að því að styrkja lægri og lægri millitekjuhópa. Við erum opin fyrir öllu í þeim efnum. Það samtal er m.a. í gangi við verkalýðshreyfinguna og aðila vinnumarkaðarins vegna þess að það var eitt af því sem var í yfirlýsingu sem undirrituð var á fyrri hluta ársins varðandi skattkerfisbreytingar. Eftir því erum við að vinna. Eftir því er ríkisstjórnin að vinna. Það ætti að vera fagnaðarefni.

Ég veit ekki hvernig ég á að geta útskýrt þetta fyrir hv. þingmanni. Þegar við ráðumst í kerfisbreytingar hafa þær áhrif á ýmsa málaflokka, plús eða mínus hér og þar. Það er nákvæmlega það sem mun gerast með starfsgetumatið, við erum að stíga skref upp á 4 milljarða í þessum fjárlögum. Það liggur ljóst fyrir að þegar frumvarp kemur (ÞorstV: Hvað kosta breytingar …?) inn í þingið, og það ætti hv. þingmaður líka að vita sem áhugamaður um fjárlagagerð, fer slíkt frumvarp í kostnaðarmat í fjármálaráðuneytinu, líka í forsætisráðuneytinu. Hv. þingmaður þarf ekki að hafa neinar áhyggjur af því að slíkt frumvarp sem kemur inn í þingið verði ekki kostnaðarmetið. Sú áætlun sem fylgir því fer inn í þá ferla sem við erum búin að skapa í fjárlagagerð, bæði við fjármálaáætlun til fimm ára og til fjárlaga. Hv. þingmaður getur bara beðið rólegur. Þetta mun koma. Þetta verður kostnaðarmetið. (Gripið fram í.)

Væntanlega fer þetta í (Forseti hringir.) þann farveg og þá ferla sem við erum þegar búin að ákveða. Fjármálaáætlun á við um það líka. (Forseti hringir.) Ég veit ekki hvernig þetta getur verið skýrara fyrir hv. þingmann. (ÞorstV: Með því að svara spurningunum.)