149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[20:23]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. umhverfisráðherra fyrir yfirferð hans á þeim málefnasviðum sem honum tilheyra. Ég vil líka óska hæstv. ráðherra til hamingju með framsæknar tillögur í loftslagsmálum. Það var ánægjulegt að fylgjast með kynningu sjö ráðherra á þeim áætlunum sem ríkisstjórnin hefur komið sér saman um. Ég held og trúi því að hæstv. umhverfisráðherra hafi borið hitann og þungann af því starfi.

Nú eigum við eftir að sjá hvernig þetta fer allt saman, hvernig framkvæmdin verður þegar áætlunar- og umræðustigi lýkur, en áætlunin er metnaðarfull og það er vel. Óska ég honum því til hamingju af því að loftslagsmálin eru stærsta viðfangsefni nútímastjórnmála og það þarf svo sannarlega að bregðast við af festu. Því vona ég að efndir fylgi orðum um áætlun.

Það er eitt og annað í þeirri áætlun sem og svo sem í fjárlögunum sem ég staldra aðeins við af því að vissulega er hækkun á fjárframlögum til málaflokksins, en þarna undir eru auðvitað ekki umtalsverðar fjárhæðir. Loftslagsbreytingarnar birtast okkur hins vegar með slíkum ógnarþunga á hverjum degi um allan heim að við verðum að bregðast við af festu.

Ég verð að segja, nú er tíminn að hlaupa frá mér, að ég hef töluverðar áhyggjur af losun. Mér finnst einhvern veginn ekki vera tekið af nægri festu á losun frá einkabílum á Íslandi og vil því spyrja hæstv. umhverfisráðherra (Forseti hringir.) hvers vegna ekki er horft meira til uppbyggingar almenningssamgangna á Íslandi. (Forseti hringir.) Þótt hann sé vissulega ekki samgönguráðherra veltir maður fyrir sér hvort ráðherra hafi ekki áhyggjur af mengun einkabíla á Íslandi.