149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[20:28]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. umhverfisráðherra fyrir svarið. Það er auðvitað góðra gjalda vert að fara í orkuskipti, breyta spúandi einkabílnum í eitthvað umhverfisvænna, en það er engu að síður svo að við erum eiginlega með alveg hörmulegar almenningssamgöngur. Ef við ætlum einfaldlega að breyta mengandi einkabíl í örlítið umhverfisvænni einkabíl erum við samt sem áður með þá stöðu að við erum einhvern veginn að teygja alltaf á öllum samgöngum og hugsum ekki um að koma fjöldanum á milli.

Það er góðra gjalda vert að setja aukafjárveitingar í skógrækt, setja aukafjárveitingar í landgræðslu og ýmiss konar náttúruvernd, en ég velti fyrir mér hvort við þurfum ekki að horfa á þennan aðalskaðvald sem er mengunin, þessi losun. Þá spyr ég bara hreinlega: Þurfum við ekki að gera betur þar? Getur verið að það sé hægt að nýta fjármuni þar eða hreinlega taka höndum saman með öðrum ráðherrum sem fara með þá málaflokka í ríkisstjórninni og reyna að knýja áfram einhvers konar byltingu þegar kemur að losuninni?