149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[20:38]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir innleggið. Það er nú svo að þegar skoðaðar eru beinar skuldbindingar Íslands gagnvart Parísarsamkomulaginu taka þær fyrst og fremst til þátta eins og vegasamgangna, sjávarútvegs, landbúnaðar, úrgangs og að hluta til iðnaðar.

Olía er um 60% af heildarskuldbindingum Íslands eða sem sagt losun frá olíu. Sú olía kemur mestmegnis frá vegasamgöngum, um 60% af olíunotkuninni er í vegasamgöngum. Þess vegna eru vegasamgöngurnar svona mikilvægar. Þess vegna er svo mikilvægt að takast á við þær. Þar eru mestu möguleikar Íslands til að standa við skuldbindingar sínar gagnvart Parísarsamkomulaginu. Það er staðreynd sem við erum að vinna eftir.

Varðandi nýskráningar á dísil- og bensínbifreiðum árið 2030 sem lagt er til og stefnt að að verði bannaðar er verið að fylgja fordæmi margra annarra þjóða. Noregur miðar við 2025, Frakkland og Bretland miða við 2040. Þetta eru skýr skilaboð í rauninni til bæði bílaframleiðenda, sem eru engir á Íslandi en eru erlendis, og innflytjenda, að á þeim tímapunkti verði ekki hægt að skrá nýjar bensín- og dísilbifreiðar. Það verður hins vegar áfram hægt að kaupa og selja þær sem þegar eru fyrir hendi.

Varðandi rafmagnsstrætisvagna eða önnur slík farartæki eru í tillögum nefndar fjármálaráðherra um breytingar á skattumhverfi eldsneytis á bíla hugmyndir um að ívilnanir muni koma fyrir umhverfisvænni strætisvagna. Ég bind vonir við að á næstu árum sjáum við það koma inn. Svo er vissulega í þessari áætlun líka heilmikið um áætlanir um að fara í endurheimt votlendis.