149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[20:45]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Frú forseti. Ég þakka ráðherranum ágæt svör. Ég bíð spenntur og mun taka þátt í umræðunni þegar þar að kemur og tillögurnar liggja fyrir. Það hefur að vísu valdið mér pínu hugarangri að við skyldum ekki halda möguleikum okkar þegar við erum að ná og ganga inn í það markmið með Evrópusambandinu, að bindingin vigtar í rauninni ekki neitt þegar við reynum að ná markmiðum okkar. Það er ekki of seint að tryggja að svo sé. Það er nefnilega efnahagslegur ávinningur af því að fara í þetta á margan hátt.

Víkjum aðeins að orkuskiptum í samgöngumálum eða í rauninni að orkuþörf okkar Íslendinga á komandi áratugum. Fyrir nokkrum dögum var birt ný orkuspá og því er spáð að orkuþörf Íslendinga muni aukast um 80% fram til ársins 2050. Mér er sagt að það sé ígildi þriggja Blönduvirkjana.

Þá spyr ég hæstv. ráðherra: Hvernig sér hann fram á að við getum mætt þeirri þörf? Það er alveg ljóst að töluverður ágreiningur hefur verið t.d. um hvernig við nýtum fallvötnin og hvar við eigum að virkja eða yfir höfuð hvort við eigum að virkja. Það eru tilbúnar áætlanir t.d. um virkjun í neðri hluta Þjórsár, sem er umdeilanlegt. Það er einnig uppi ágreiningur um Hvalárvirkjun o.s.frv.

Við ræðum loftslagsmálin og það að við ætlum að ná háleitum markmiðum og það skal ég styðja. Við horfum fram á gríðarlega aukningu á orkuþörf okkar og (Forseti hringir.) þá hljótum við að verða að svara því um leið hvernig við ætlum að mæta henni, (Forseti hringir.) ef við ætlum að halda okkur við hina hreinu orku.