149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[21:00]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni kærlega fyrir þetta. Ég tek heils hugar undir með hv. þingmanni þegar hún ræðir um að samræma þurfi markmið um kolefnisbindingu út frá loftslagsmarkmiðum við markmið um líffræðilega fjölbreytni og hreinlega markmið um að auka gróðurhulu í landinu.

Það er gríðarlega mikilvægt og er sú samþætting sem í auknum mæli er litið til á erlendum vettvangi, á vettvangi þriggja stórra alþjóðlegra samninga, samningsins um líffræðilega fjölbreytni, samningsins um eyðimerkurmyndun og samningsins um loftslagsmál.

Hvað varðar þá vinnu sem fram undan er, við getum sagt vinnu við að móta tillögur í landgræðslu, skógrækt og endurheimt votlendis, hef ég þegar sett hana í gang með Skógræktinni og Landgræðslunni. Ég hef falið þeim það verkefni að koma með áætlanir er lúta að endurheimt votlendis, hvernig ná megi meiri árangri í því að stöðva jarðvegsrof, sem er náttúrulega stórt og mikið verkefni enn þann dag í dag, þannig að við töpum ekki auðlindum og frjósemi og kolefni út í andrúmsloftið í meira mæli en nauðsynlegt er, um endurheimt birkiskóga og víðikjarrs og um nýskógrækt. Það eru áherslur sem ég hef lagt og það er með þessi fleiri markmið í huga eins og hv. þingmaðurinn benti á í upphafi máls síns.

Varðandi rannsóknir og vöktun erum við, vegna aukinnar áherslu á kolefnisbindingu, að gera Landgræðslunni og Skógræktinni kleift að vinna betur í því bæði að skrá og ná betur utan um þá þætti sem ekki eru eins vel þekktir, þ.e. hvað varðar t.d. votlendið, á meðan við þekkjum betur hvernig kolefnisbókhaldinu er háttað fyrir landgræðslu og skógrækt.