149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[21:06]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf):

Frú forseti. Ég vil fyrst þakka fyrir þetta tækifæri til að skiptast á skoðunum við hæstv. umhverfisráðherra. Ég ætla að byrja á því að ræða um framkvæmd aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum til næstu 12 ára og byrja á lið merktum C, sem heitir Átak í kolefnisbindingu og bættri landnotkun. Ég er þá sérstaklega að huga að nokkrum þáttum þar eins og skógrækt og eflingu nýskógræktar til kolefnisbindingar, landgræðslu, átaki í endurheimt votlendis, samstarfi við sauðfjárbændur — þetta eru liðir 18, 19, 21 og 22. Ég veit ekki hvaða tölur gætu legið til grundvallar áætlunum um kolefnisbindingu með landgræðslu eða endurheimt votlendis, a.m.k. hafa þær hvergi verið birtar þannig að óyggjandi rannsóknir búi þar að baki. En ég vil benda á að í skógræktinni liggja traustar tölur fyrir. Mig langar að fá aðeins fram álit hæstv. ráðherra á þessu. Hafa stjórnvöld sett fram markmið um hvernig fjármögnun skuli skiptast milli einstakra aðgerða í kolefnisbindingu, sem ég nefndi áðan, og bættri landnotkun, markmið um það hvaða ávinningi einstaka aðgerðir eigi að geta skilað í formi kolefnisbindingar og kostnað þann sem hlýst af hverju bundnu tonni af kolefni í hverri af þessum aðgerðum sem voru taldar upp hér áðan?

Ég geri mér alveg grein fyrir því að það þarf að bæta greiningu stórkostlega. Það stendur reyndar í aðgerðaáætlun að bæta þurfi stórkostlega greiningu á árangri og kostnaði við flestar af þessum aðgerðum. En ég vil samt benda á að í skógræktinni liggja þessar tölur fyrir.