149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[21:11]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þetta fína svar. Það er ekki og verður aldrei ofmælt að það verður að fara skynsamlegustu leiðina í nýtingu á almannafé; það er það sem ég er að reyna að fá fram hér og benda á. Við verðum að fara þá leið sem gefur mest til framtíðar í þessum efnum með tilliti til nýtingar á almannafé.

Hæstv. ráðherra nefndi það hér áðan að endurheimta birkikjarr. Gott og vel. Ég er hér með grein um kolefnisbindingu trjátegunda. Birki — það var ekki talað um birkikjarr — bindur kannski 2,7–3,4 tonn á ári á hektara, stafafura 4,6–4,9, sitkagreni frá 6–10 og alaskaösp frá 8–23 tonn á ári á hektara. Þessar tölur þekkjast kannski. Á að fara að setja mikið fjármagn í að endurheimta birkikjarr sem bindur langminnst? Ég segi þetta bara svona til ábendingar. Það er bara sigurstaða að rækta skóg, bæði ræktunin, grisjunin, hráefnið sem kemur, atvinna sem skapast til langrar framtíðar.

Ég ætla að nota tíma minn hér á síðustu sekúndunum til að spyrja um það sem snýr að hæstv. umhverfisráðherra varðandi mengunarvarnir við sjókvíaeldi. Varðandi lagaumhverfið: Hvenær á að taka upp eftirlit sambærilegt því og er erlendis varðandi mengun frá þeim, hversu ört á t.d. að skipta um stað fyrir kvíarnar eða hvíla þær? Ég spyr líka um mótvægisaðgerðir varðandi erfðamengun frá þessum kvíum. Það er vitað að fiskur sleppur úr þessu. Ég spyr hvort ráðgerð sé einhver (Forseti hringir.) lagaumgjörð um það hvernig (Forseti hringir.) vinna eigi á móti þessu, t.d. að ná þessum fiski til baka.