149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[21:13]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Því er til að svara að það skiptir miklu máli hversu mikið er bundið þegar ráðist er í aðgerðir sem snúa að kolefnisbindingu, en það skiptir líka máli að við ráðumst í fjölbreyttar aðgerðir sem geta nýst víða um land og kannski ekki síst bændum, bæði til þess að byggja upp skógarauðlind en líka til þess að byggja upp gróðurauðlindina almennt. Ég vil líka benda á að við þurfum, eins og ágætlega kom fram í máli hv. þm. Líneikar Önnu Sævarsdóttur, að líta til fleiri markmiða en þess eins hversu mikið magn við bindum, við þurfum líka að líta til markmiða um líffræðilega fjölbreytni og markmiða um að stöðva gróðureyðingu.

Við erum hér að vinna með fjölbreytt markmið. Ég treysti fullkomlega þeim stofnunum sem mest vita um þetta, Landgræðslunni og Skógræktinni, til að koma með skynsamlegar tillögur hvað það varðar.

Varðandi sjókvíaeldi er það mín skoðun að við þurfum í auknum mæli að horfa til þess hvernig við getum látið þennan atvinnuveg blómstra hér á landi án þess að þurfa að hafa áhyggjur af því að erfðamengun verði í villtum laxi á Íslandi. Það þýðir að við þurfum að horfa langt fram í tímann, horfa 10 til 15 ár fram í tímann, og horfa til þess að við getum í auknum mæli farið úr því kerfi sem við erum með í dag og í kerfi sem annaðhvort er uppi á landi eða að það sé tryggt, þar sem það er úti í sjó, að allar slíkar mengunarvarnir séu sem allra bestar, hvort sem það er lokað kerfi eða þannig úr garði gert að komið verði í veg fyrir sleppingar og þar sem hægt verður að nýta það sem kemur frá þessum kvíum hreinlega sem áburðarefni.