149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[21:16]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Ég vil byrja á að hrósa hæstv. ráðherra og ríkisstjórninni fyrir þá kynningu á áformum í loftslagsmálum sem virðast ætla að vera við fyrstu sýn mjög metnaðarfull og góð áform um raunverulegar aðgerðir til þess að draga úr losun. Það er auðvitað ánægjulegt að sjá að ríkisstjórnin ætli að setja þetta mál í forgrunn. Við getum vonandi flest verið sammála um það hér í þessum sal að þetta sé gríðarlega mikilvægt verkefni, ekki bara hér á landi heldur um allan heim.

Mig langar líka til að hrósa hæstv. ráðherra fyrir að þessi áætlun sé fjármögnuð í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar og þá fjárlögum næsta árs því að í fjárlagafrumvarpinu sem við erum að ræða, að mér sýnist, er nokkur misbrestur á því í áformum ýmissa annarra ráðherra. Er það auðvitað miður þegar við erum að leggja áherslu á vandaðri vinnubrögð við áætlunargerð ríkisins að ráðherrar séu að kynna aðgerðir eða áform sem hvergi finnst staður hvað varðar kostnað. Hér er því ekki til að dreifa. Það er auðvitað mjög ánægjulegt að sjá.

Það sem ég hnýt hins vegar um er einmitt þessi mikla áhersla á mótvægisaðgerðir. Mönnum finnst mikill þungi í áformum stjórnvalda vera bundinn við skógrækt og endurheimt votlendis sem hvort um sig geta verið alveg ágætisverkefni en eru þó að því er virðist bundin talsverðri óvissu um hvernig í fyrsta lagi þau verða færð til bókar og hver bókhaldsskilin af því verði í loftslagsuppgjöri okkar. Væri kannski ágætt ef ráðherra gæti upplýst aðeins betur um hvort dregið hafi úr þeirri óvissu. Þarna hefur verið talað um að talsverð vísindaleg óvissa sé á bak við þetta líka, en ekki síður hvernig Evrópusambandið muni meðhöndla þessi úrræði í loftslagsbókhaldi einstakra landa. Og ekki síður þá þegar kemur að (Forseti hringir.) áformum um að draga raunverulega úr losun, eins og t.d. kolefnisgjaldinu. Það er kannski tvennt sem ég staldra við þar: Er stuðningur miðað við yfirlýsingar (Forseti hringir.) ýmissa þingmanna í ríkisstjórnarsamstarfinu varðandi kolefnisgjaldið, er stuðningur við þá hækkun sem þar er áformuð? Væri ekki (Forseti hringir.) nauðsynlegt í raun og veru að ganga lengra til þess að búa til nægilega hagræna hvata til að draga úr losun?

(Forseti (BN): Forseti vill biðja hv. þingmenn að virða tímamörk.)