149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[21:19]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Þorsteini Víglundssyni fyrir þetta fína innlegg. Ég fer eiginlega hjá mér þegar hann hælir mér svona mikið, en takk fyrir það.

Það er rétt að ef litið er til skiptingar fjármunanna í aðgerðaáætlun loftslagsmála er áherslan meiri á kolefnisbindingu en á hinar aðgerðirnar. Það er mjög víða í þessum málum, held ég, þörf fyrir fjármagn, en aðalatriðið er og ég vil taka það mjög skýrt fram að fyrst reynum við að draga hvað mest við getum úr losun eins og tæknin leyfir okkur hverju sinni, svo klárum við dæmið ef svo má að orði komast með því að ráðast í bindiaðgerðir. Ríkisstjórnin hefur sett sér það markmið í stjórnarsáttmála að ná kolefnishlutleysi árið 2040. Það er gríðarlega mikilvægt að sú binding sem mun alltaf þurfa að eiga sér stað hefjist strax, vegna þess að kúrfan, bindingarkúrfan yfir tíma, er með þeim hætti að það binst minnst fyrst og svo eykst það eftir því sem líður á tímann, svo flest það út á einhverjum tímapunkti. Þess vegna erum við að leggja áherslu á þetta.

Ég hef hins vegar sagt að það er náttúrlega ekki útilokað að breyta þurfi áherslum eitthvað þegar líður á þann tíma sem áætlunin hefur verið í gangi hvert fjármagnið fer nákvæmlega. Við verðum að horfa til þess að vera sveigjanleg með það, það er algjört grundvallaratriði í svona áætlun.

Hvað varðar kolefnisgjaldið njóta þær breytingar, sem þarna eru boðaðar og eru þær sömu og eru í fjármálaáætlun, að sjálfsögðu stuðnings stjórnarflokkanna. Hvort það ætti að vera meira, ég get sjálfsagt sagt að ég væri örugglega þeim megin sem myndi vilja að svo væri, en þarna er komin a.m.k. í bili niðurstaða í (Forseti hringir.) hvar línan er sett niður um það.