149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[21:21]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Ég vona, forseti, að ég fari ekki alveg með hæstv. ráðherra þegar ég hrósa honum aftur fyrir að svara spurningunum sem ég spurði. Það er líka ánægjuleg nýbreytni í þessum spurningatíma hér.

Ég velti aðeins fyrir mér þegar kemur að því sem mætti kalla, við getum deilt um það vafalítið, sumir hér sérstaklega, þ.e. hvort það teljist jákvæðir eða neikvæðir hvatar þegar við beitum skattlagningu, þ.e. þessu grundvallarsjónarmiði að sá borgar sem mengar, þegar við horfum á markmiðið um að við skrúfum fyrir innflutning á fólksbílum knúnum jarðefnaeldsneyti 2030 með banni, eins og hér er reyndar lagt til, sem ég er kannski ekki sérstaklega hrifinn af sjálfur. Hefur ríkisstjórnin látið meta út frá þeim áformum sem eru varðandi kolefnisgjöldin? Hvort þau muni ein og sér, ásamt t.d. niðurgreiðslu eða ívilnunum gagnvart vistvænum bílum, duga til að ná þessu markmiði án banns fyrir 2030, þ.e. að hinn efnahagslegi ávinningur af vistvænum bíl væri einfaldlega orðinn nægilega mikill til þess að skrúfa meira og minna fyrir kaup á nýjum bifreiðum knúnum jarðefnaeldsneyti. Ég held að það væri eitt og sér besta leiðin til þess að tryggja orkuskiptin í samgöngum, ekki að þau áform eða þeir hagrænu hvatar sem við stillum af í upphafi séu metnaðarlitlir og að grípa þurfi til banns að einhverjum tíma liðnum, heldur að þetta gerist meira af sjálfu sér.

Síðan að lokum það sem ég sakna helst í þessari umræðu allri og sér í lagi þegar kemur að fjárlagafrumvarpinu og svo sem líka fjármálaáætlun, það eru áformin um borgarlínu. Það er ansi fátækleg umfjöllun, ef nokkur raunar, í báðum þessum skýrslum hvað hana varðar. Ég bið hæstv. ráðherra að upplýsa mig aðeins betur um hvaða áhersla verður þar raunverulega í áætlun um (Forseti hringir.) orkuskipti og að draga úr losun.