149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[21:25]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Fyrst ber að þakka þær málefnalegu og ágætu umræður sem hafa verið hér í allan dag. Ef við skoðum þessa miklu bók, 448 síður, eru auðvitað margir jákvæðir og áhugaverðir kimar í henni og svo er fylgirit með sem ég rek ekki. Þegar kemur að loftslagsmálum finnst mér að hér hafi komið fram að nú er við völd ríkisstjórn sem þorir í loftslagsmálum. Það er ákaflega mikilvægt.

Ég tala um hina og þessa kima. Það á að auka framlög til sérstakra aðgerða í loftslagsmálum, það hefur komið fram hér áður, auka landvörslu, vöktun og rannsóknir á náttúruverndarsvæðum. Annað sem hefur ekki verið nefnt er að það á að auka fé til og vanda betur úrvinnslu úrgangs, sem er mikilvægt. Þetta eru allt umtalsverðar upphæðir, öfugt við það sem var haldið fram fyrr í umræðunni. Þetta eru umtalsverðar upphæðir og fara hækkandi á næstu árum.

Ef maður lúsarleitar svo frumvarpið kemur tvennt í ljós sem ég ætla að nefna. Annars vegar eru náttúrustofurnar. Það þarf ekkert að fjölyrða um þær, þessar átta náttúrustofur. Þær gera mikið gagn og eru mikilvægur þáttur í byggðastefnu. Þar eiga framlög að lækka um 45 milljónir. Að vísu koma 16 á móti, en þetta er umtalsverð lækkun fyrir þessar stofur því að þær taka ekki mikinn pening. Það þarf sem sagt að seilast dýpra í ríkiskassann. Um það ætla ég að spyrja ráðherra.

Hitt varðar beinar varnir gegn náttúruvá. Þar lækka líka framlög. Ég veit að það er vegna ýmissa snjóflóðaaðgerða sem er búið að vinna, en það eru aðrar mjög mikilvægar ógnanir sem eru þá vatnsflóð, (Forseti hringir.) bæði vegna aukinnar úrkomu og jökulhlaupa, og einnig aurflóð. Það er ekki reiknað með nema 70 millj. kr. í fyrirhleðslur og auknar flóðavarnir. Þarna hefði þurft að láta lækkunina eiga sig og taka til ráðstöfunar þá peninga sem þarna hefðu e.t.v. orðið til og setja í auknar varnir gegn þess konar náttúruvá.