149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[21:28]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Ara Trausta Guðmundssyni kærlega fyrir þetta innlegg. Ég tek undir með honum um mikilvægi náttúrustofa. Það er hægt að greina frá þeim gleðilegu tíðindum að þrátt fyrir að hér sé sýnd lækkun beint á stofurnar í fylgiritinu eru, eins og þingmaðurinn kom inn á, 16 milljónir teknar annars staðar frá, sem þeim sem hér stendur tókst að finna annars staðar ef svo má að orði komast. Til viðbótar við þetta hafa verið sérstök verkefni til tveggja náttúrustofa, náttúrustofunnar á Húsavík og náttúrustofunnar í Bolungarvík, sem við munum líka tryggja og eru upp á 20 milljónir. Þá erum við komin langt í að vera á þeim stað sem fjárlaganefnd tryggði í fyrra. Að auki erum við að horfa til þess að á næsta ári koma 80 millj. kr. inn til vöktunar á náttúru Íslands sem verður verkefni sem bæði Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur munu njóta góðs af. Þetta er gríðarlega mikilvægt til að tryggja og styðja alla ákvarðanatöku.

Varðandi beinar varnir gegn náttúruvá er hægt að taka undir það að ég hefði alveg gjarnan viljað sjá meira fjármagn koma þar inn. Ég vil sérstaklega læra meira og taka umræðuna lengra með hv. þingmanni hvað varðar þær 70 millj. kr. sem hann nefnir í varnirnar og tek undir það að við þurfum að skoða þetta mál mun betur og munum vonandi eiga frekari umræður um það á þingi sem og utan þess.