149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[21:36]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Nú líður að lokum þessarar 1. umr. um fjárlög. Ég lét þess getið hér undir lok gærdagsins að mig langaði til þess að segja sitthvað um formið. Ég ætla svo sem ekki að fara að endurtaka það, en ég held að við höfum séð það að breytingar á forminu, framsetningu fjárlagafrumvarpsins og eftirfylgni þess á undanförnum árum, hafa á margan hátt verið til góðs, sérstaklega sú nýbreytni sem við erum að þróa áfram hér, að eiga orðastað við einstaka ráðherra sem bera samkvæmt lögum um opinber fjármál sífellt meiri ábyrgð á sínum málaflokkum í framkvæmd fjárlaga. Það birtist m.a. í því að þeir geta gert breytingar á fylgiritinu sem fylgir fjárlagafrumvarpinu og þeir eru sömuleiðis ábyrgir fyrir stefnumótun á sínum málefnasviðum og bera ábyrgð á því að skila ársskýrslu um framgang þeirra verkefna sem þeir hafa sett sér mælanleg markmið um, líkt og fram hefur komið í nýbirtum ársskýrslum. Þetta held ég að hafi allt verið til bóta. En ég kem þessu svona að í umræðunni vegna þess að ég tel að við eigum áfram að þróa þetta fyrirkomulag þannig að það gagnist best til þess að velta upp ólíkum hliðum á öllum þeim málum sem um er rætt.

Mig langar að ítreka sömuleiðis að ég vonast til þess að okkur takist að standast starfsáætlun um það hvenær 3. umr. fjárlaga fer fram. Það er að sjálfsögðu samstarfsverkefni og ég hef boðið fram alla aðstoð. Ég veit að fagráðherrar hver á sínu sviði eru reiðubúnir til þess að greiða fyrir störfum þingsins í þingnefndinni til þess að svo megi verða sömuleiðis, en ég veit að þetta er mikið verk að vinna.

Við höfum loks rætt um það hvort við getum mögulega fært birtingu fjárlagafrumvarpsins fram. Ég hef tekið vel í það. Ég sé í fljótu bragði ekkert sérstakt því til fyrirstöðu að við birtum fjárlagafrumvarpið opinberlega áður en þing kemur saman nema það er þó eitt sem getur orðið þröskuldur í því, þ.e. einfaldlega það að stjórnkerfið verði ekki búið að ljúka allri vinnunni. Við munum áfram ræða það í fjármálaráðuneytinu. Ég hef síðast í dag velt upp þeim möguleika að við gefum þinginu einhverja sólarhringa áður en málið kemst á dagskrá hér. Við skulum sjá hvað við komumst með það, hvort sem það verður á næsta ári eða næstu árum, að veita betra svigrúm fyrir upphafsumræðu á þinginu um fjárlögin með því að menn hafi fengið nokkra sólarhringa að lágmarki til þess að kynna sér efnið og koma betur undirbúnir til umræðunnar.

Þetta var aðeins um formið og umbúnaðinn og fyrirkomulag umræðunnar. Varðandi efnið held ég að ég verði bara að segja að ég fékk gott tækifæri til þess að eiga orðastað við þingmenn í gær og síðan fagráðherrar í allan dag. Við og flokkarnir sem erum að baki þessu frumvarpi stöndum stolt við það. Þetta er frumvarp sem sýnir góða stöðu. Við getum tekist á um það hvort við þurfum að búa okkur enn undir óvænt áföll sem ekki eru komin í spákortin eða ekki. Í það minnsta er ljóst af öllum tölum sem fylgja þessu frumvarpi að við höfum verið að gera það, uppsafnað, á undanförnum árum að búa í haginn fyrir framtíðina. Við byggjum sömuleiðis á opinberum spám.

Við getum síðan sett það í eitthvert stærra samhengi umræðunnar um fjármálaáætlun til langs tíma hvort afkomumarkmiðið sem slíkt eða markmið okkar um skuldalækkun séu nægjanlega metnaðarfull eða nægjanlega vel afstillt miðað við stað okkar í hagsveiflunni í dag. En ég tel að það hafi sýnt sig, bæði með verðbólgutölum, atvinnuleysistölum og því að vextir hafa á undanförnum misserum verið á niðurleið, að við höfum fundið ágætisjafnvægi í þessu efni þótt það sé svo sem ekki hægt að horfa fram hjá því að í nýjustu skýrslunni um efnahagsmál sem Gylfi Zoëga skilaði af sér fyrir skemmstu lætur hann að því liggja að opinberu fjármálin hefðu getað stutt örlítið betur við peningastefnuna þannig að vextir hefðu þá mögulega orðið eitthvað lægri.

Þetta togast auðvitað allt á við pólitískan veruleika sem við þekkjum best sem erum saman komin hér, ákall landsmanna um aukna fjármögnun á tilteknum sviðum. Það sem ég tek frá þessari umræðu hér þegar henni er að ljúka, 1. umr., er kannski það að tónninn í umræðum um ríkisfjármálin er að breytast mjög sterklega ár frá ári, t.d. frá því að snúast fyrst og fremst um vanfjármögnun á svo mörgum sviðum yfir í umræðu um það hvort við séum að gera of mikið á einstaka sviðum og ættum að fara að íhuga að draga úr.

Vissulega hafa sumir þingmenn nefnt það til sögunnar að aðhaldinu gæti líka verið sinnt á skattahliðinni, en ég hef þó minna heyrt ákall um skattahækkanir en oft áður. Í þessu frumvarpi er svo sem hvorki verið að lækka verulega skatta né að breyta þeim til hækkunar, en þó verð ég að nefna að fyrir atvinnulífið skiptir miklu að það skref er stigið núna og það veitir ákveðinn fyrirsjáanleika að lækka almenna tryggingagjaldið um u.þ.b. 9% af heildargjaldinu, eða um hálft prósentustig. Hér er ég að vísa til almenna tryggingagjaldsins. Þetta eru um 8 milljarðar af 100 milljarða skattstofni sem við erum að gefa eftir. Ég vísa aftur til þess sem sagt var í stjórnarsáttmálanum um það að samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs hefur farið þverrandi á undanförnum árum með hærra gengi og miklum launahækkunum. Þetta er eitt af því sem stjórnvöld telja mikilvægt að leggja inn í þá stöðu til þess að greiða fyrir kjarasamningum á komandi misserum.

Sömuleiðis höfum við farið ágætlega yfir aðrar skatt- og bótabreytingar. Þar skiptir kannski hvað mestu að halda því til haga að í langtímaáætlun okkar er meiningin að ganga lengra, og vinna við samþættingu bótakerfa og tekjuskattskerfisins stendur enn yfir. Það sem við eigum við þegar við segjum að við ætlum að samþætta betur bótakerfin og tekjuskattskerfið er að það er ekki fyrir hvern sem er og reyndar nánast engan án þess að hann hafi til þess svolítið vel undirbúið eða vel forritað excel-skjal að átta sig nákvæmlega á því hvaða áhrif það hefur fyrir ólíkar fjölskyldugerðir að auka heimilistekjurnar. Það er vegna þess að við erum að vinna með svo mörg og ólík kerfi í bóta- og stuðningskerfum heimilanna og hvert fyrir sig var sérsniðið á sínum tíma með ólík tekjuskerðingarmörk, með ólík eignamörk, eins og vaxtabótakerfið og barnabótakerfið. Svo við stöldrum aðeins við barnabótakerfið þá horfir það auðvitað til fjölda barna og tekna. Á móti því er síðan annað kerfi sem heitir húsnæðisbótakerfið, sem sömuleiðis horfir til fjölda barna og tekna. Saman hafa þau áhrif sem við höfum ekki fulla yfirsýn yfir nema setja inn í flóknar reikniformúlur allar nákvæmar heimilisaðstæður þeirra sem eiga að geta gert tilkall til þessara bótaflokka.

Bætum svo við eins og ég sagði vaxtabótakerfinu, skoðum síðan önnur skattaleg úrræði til ívilnunar sem við höfum haft. Eigum við síðan að ræða um persónuafsláttinn ofan á allt þetta? Reynum svo að átta okkur á því hvaða áhrif á heildarmyndina krafa t.d. stéttarfélaga um sérstaka launahækkun til lægstu launahópanna hefur inn í þessa flóknu jöfnu. Þetta er bara orðið svo flókið og svo stagbætt kerfi að við töldum þess virði að leggja í margra mánaða vinnu við að greina kerfið. Það gengur ágætlega, en þeirri vinnu er ekki lokið.

Okkar markmið við breytingar á kerfinu verður að ná betur með þeim ívilnunum sem kerfið hefur upp á að bjóða í heild sinni til þeirra sem teljast til lægri tekjuhópa og lægri millitekjuhópa. Ég sé fyrir mér kerfi þar sem við munum þá draga úr ívilnunum til þeirra sem eru komnir langt yfir meðaltal, kannski hátt í tvöfaldar meðaltekjur, og nýtum frekar það svigrúm (Forseti hringir.) sem við ætlum til þess að ná betur til hinna. Þetta er umræða sem við munum taka síðar. En mér fannst rétt að koma henni að í tengslum við umræðu um þessi mál þessa síðustu tvo daga.