149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[21:50]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst varðandi kostnaðarmat út af áherslumálum á ólíkum málefnasviðum: Með áherslu okkar á endurmat útgjalda erum við að segja að ekki sé bara mikilvægt að meta kostnað við ný verkefni heldur líka gömul verkefni. Allt það sem er á útgjaldahlið ríkisfjármálanna þarf að koma til reglulegrar endurskoðunar. Þó að ég geti tekið undir það með hv. þingmanni að mjög æskilegt væri að ráðherrar gætu komið með sundurgreint og nákvæmt kostnaðarmat um einstaka málaflokka er alltaf spurning hversu mikla vinnu ráðherrarnir eiga að leggja í að reikna það nákvæmlega fyrir fram. Ég held að það sé hægt að segja, þannig að sanngirni sé gætt, að menn hafi a.m.k. getu til að gera gróflega grein fyrir því hvernig þeir sjái fjármununum varið í þágu þess málefnis sem um er rætt hverju sinni. Í öðrum tilvikum er kannski bara algjörlega augljóst að fjárheimildirnar sem eru undir munu ekki duga til neins nema koma okkur af stað í átt að einhverju markmiði. Það koma mörg dæmi upp í kollinn hér.

Þegar við segjum að við ætlum að halda til haga í fjármálaáætlun 4 milljörðum til að gera umbætur á almannatryggingum í þágu öryrkja væri hægt að spyrja: Nákvæmlega hvernig ætlið þið að verja þessum 4 milljörðum? Svarið liggur auðvitað í útfærslunni sem á eftir að kynna. (Gripið fram í.) Að því leyti til erum við kannski ekki að stíga lengra en það að segja að af þeim heildarfjárveitingum sem við höfum úr að spila eða fjárheimildum sem við getum skipt á milli málefnasviðanna sé forgangsröðunin þessi.

Þetta er kannski munurinn á því (Forseti hringir.) þegar við tökum umræðu um stóru myndina og breiðu línurnar — hvernig er þróunin á milli ára á milli einstakra málaflokka eða hvernig er skiptingin (Forseti hringir.) á milli þeirra — og um það hvernig við brjótum það niður í fjárlögum.

Ég hef síðan ekkert um verðlagsspurninguna að segja annað en það að menn þurfa bara að gæta sín á því hvort þetta er á föstu verðlagi eða ekki.