149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[21:52]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Með verðlagshlutann væri a.m.k. gott að það væri merkt á hvaða verðlagi viðkomandi tölur eru til þess að hægt sé að taka tillit til þess; það vantar upplýsingar um að þetta sé á mismunandi verðlagi.

Ráðherra kom inn á lykilinn í þessu, 4 milljarðar teknir frá fyrir örorku, en við eigum eftir að ákveða hvað það er. Af hverju ætti Alþingi að veita fjárheimild til stjórnarinnar til að gera bara eitthvað? Kannski verður útfærslan á þann hátt að Alþingi gæti sagt: Fyrirgefið, við viljum ekki að þið eyðið 4 milljörðum svona, við viljum að þið eyðið þeim öðruvísi. Hvernig öðruvísi? Segið okkur það, þá skulum við veita ykkur fjárheimildina. Það er rétt röð að gera þetta þannig.

Vissulega þarf kostnaðarmatið ekki að vera hárnákvæmt. Og vissulega vitum við að það tekur breytingum, það kemur endurmat og fleira. Það er bara gott. Þá komast menn nær því að vera nákvæmir í kostnaðarmati eftir því sem fram líða stundir. Við þurfum að æfa okkur í því til þess að verða betri í því.

Alþingi á alls ekki að sætta sig við að menn biðji um peninga án þess að þeir tilgreini í hvað á að nota þá. Ég held að það sé ákveðið lykilatriði sem við þurfum á að halda til þess að skapa alvöruaðhald og alvörueftirlit með framkvæmd fjárlaga á Alþingi.