149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[21:56]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Ég ætla nú að byrja á jákvæðum nótum. Samfylkingin fagnar hverri krónu sem sett er í grunninnviði samfélagsins. Í þessu frumvarpi má þó þrátt fyrir allt finna fjármuni sem munu renna á réttan stað, þó það nú væri, enda snerust síðustu kosningar meira eða minna um fjárfestingar í opinbera innviði.

Eftir tæplega mánuð verða tíu ár liðin frá hruni. Á morgun verða tíu ár liðin frá því Lehman-bræður í New York fóru á hausinn, sem olli skjálfta um allan heim. Fordæmalaust hrun, ekki síst hér. Gjaldþrot íslensku bankanna hefði verið fjórða stærsta gjaldþrot í sögu Bandaríkjanna hefðu þeir verið staðsettir þar. Í kjölfar hrunsins fóru mörg íslensk fyrirtæki á hausinn og almenningur þurfti að taka á sig miklar byrðar og erfiðleika. Það eru margir sem ekki hafa enn jafnað sig á því. Ríkissjóður var rekinn með milljarða króna halla í nokkur ár og hið opinbera velferðarkerfi lét mikið á sjá. Okkur tókst hins vegar að rétta úr kútnum að mestu leyti. Nú hefur hagvöxtur verið samfleytt í sjö ár, sem er einstakt í sögu okkar. Við slíkar aðstæður eiga að skapast möguleikar til að bæta þann skort á opinberum fjárfestingum og rétta stöðu fólks. Sums staðar hefur það gengið ágætlega, annars staðar alls ekki.

Herra forseti. Það er óþarfi að endurtaka allt sem hér hefur verið sagt í gær og dag en mig langar að nefna nokkra hluti. Í fjárlagafrumvarpinu eru lítil merki þess að ríkisstjórnin sé tilbúin að ráðast gegn þeim mikla eignaójöfnuði sem ógnar hér stöðugleika, m.a. á vinnumarkaði. Það er þó barátta sem mikilvægt er að heyja. Í dag á 1% landsmanna meiri hreinar eignir en 80% landsmanna. Þá tóku 10% landsmanna til sín tæpan helming þeirra hreinu eigna sem urðu til árið 2016.

Í því sambandi er ágætt að minnast á vannýtt tekjuúrræði, svo sem hækkun fjármagnstekjuskatts, álagningu auðlegðarskatts og aukin auðlindagjöld. Áfram verða auðlindagjöld minna en 1% af tekjum ríkisins, sem verður að teljast mjög sérstakt í ljósi þess að um er að ræða eina helstu sameiginlegu auðlind þjóðarinnar. Veiðileyfagjald næsta árs stefnir í að verða einungis 7 milljarðar. Í fjárlagafrumvarpi síðustu ríkisstjórnar var gert ráð fyrir um 10 milljörðum fyrir árið 2018. Því er um að ræða 3 milljarða lækkun veiðigjalda milli ára.

Ég minni á að hagnaður sjávarútvegsfyrirtækja var tæpir 300 milljarðar kr. á sjö ára tímabili og arðgreiðslur 50 milljarðar á fimm árum. Nú berast fréttir af risahagnaði og arðgreiðslum til fáeinna útgerðarmanna og þá, akkúrat þá, vill ríkisstjórnin lækka veiðileyfagjöldin.

Það er líka athyglisvert að samkvæmt fréttum eru fiskstofnar nú í sögulega sterkri stöðu og því er einstakt tækifæri til að setja viðbótarkvótann á markað. Þar ákvarða útgerðarfyrirtækin sjálf hver veiðileyfagjöldin verða í stað þess að stjórnmálamenn séu að krukka í því tilviljunarkennt.

Það var mjög fróðlegt að fylgjast með uppboðunum sem áttu sér stað hjá frændum okkar Færeyingum. Þeir fá töluvert meira, í sumum tilfellum margfalt það sem við fáum, fyrir einstaka tegundir.

Það var einnig athyglisvert að fjármagnstekjuskattur mun skila 2 milljörðum kr. minna í ríkiskassann á næsta ári en það sem fjármálaáætlun gerði ráð fyrir. Einungis 2% fjölskyldna greiddu fjármagnstekjuskatt vegna söluhagnaðar af hlutabréfum meðan 98% greiddu þennan hluta ekki. Auðvitað segir það sitt um eignastöðu og eignaójöfnuð.

Þá stendur til að lækka bankaskattinn um 7 milljarða, þó kannski ekki strax. Það verður líka að teljast sérkennileg forgangsröðun.

Hins vegar er lækkun tryggingagjalds mjög jákvæð og löngu tímabær, enda skiptir það miklu máli fyrir ýmis fyrirtæki, ekki síst lítil og meðalstór og ekki síst á sviði nýsköpunar.

Þeir fjármunir sem eiga að renna til öryrkja umfram það sem er vegna fjölgunar þeirra í frumvarpinu duga hins vegar einungis fyrir þriðjungi af því sem það kostar að afnema svokallaða krónu á móti krónu skerðingu, sem við hljótum öll að vera sammála um að er mjög óréttlát.

Samkvæmt bandorminum sem við ræðum í næstu viku er líka gert ráð fyrir óbreyttu frítekjumarki vegna atvinnutekna örorkulífeyrisþega. Það er sérkennilegt. Aukningin til aldraðra er að mestu vegna fjölgunar í þeirra hópi og enn vantar talsvert á fjármuni í þann málaflokk svo þeir megi vel við una. Nokkra milljarða vantar t.d. í rekstur öldrunarheimila. Öryrkjar og eldri borgarar þurfa því að bíða enn eitt árið eftir réttlæti og nauðsynlegum kjarabótum.

Háskólarnir fá enn helmingi minni fjármuni en það sem lofað var í stjórnarsáttmálanum. Og framhaldsskólarnir þurfa beinlínis að sæta lækkun milli ára. Það er áhyggjuefni, enda er þetta ein mikilvægasta fjárfesting okkar Íslendinga til að tryggja betri framtíð.

Sjúkrahúsþjónusta, heilsugæsla um allt land, samgöngur, löggæsla. Þetta eru allt illa eða vanfjármagnaðir málaflokkar. Við þurfum svo sannarlega að gera betur í þeim líka.

Við erum rík þjóð og við getum gert miklu betur. Við þurfum og hefðum þurft að nýta þá uppsveiflu sem hér hefur verið til þess að byggja upp innviðina enn betur, því að þegar harðnar á dalnum er mjög óvíst og raunar ólíkt að okkur takist að gera það.

Herra forseti. Ég vil líka vekja sérstaka athygli á algjöru metnaðarleysi þegar kemur að húsnæðisstuðningi á tímum þar sem stór hópur stendur frammi fyrir algjöru úrræðaleysi. Framlög til húsnæðismála haldast nánast óbreytt milli ára. Árið 2019 verða vaxtabætur einungis 3,4 milljarðar, sem er minna en til stóð árið 2018, þegar gert var ráð fyrir að þeir yrðu 4 milljarðar. Þeir verða einungis 3 milljarðar í ár vegna skerðinga.

Ég minni á að helmingur er dottinn út úr vaxtabótakerfinu, en þegar Samfylkingin var síðast í ríkisstjórn með VG settum við 100 milljarða í vaxtabætur og barnabætur á kjörtímabilinu, sem er auðvitað miklu hærri upphæð en það sem ríkisstjórnin er að gera núna. Svona gætum við haldið lengi áfram.

Herra forseti. Framlög til þróunarsamvinnu eru líka einungis helmingurinn af því sem sum nágrannaríkin leggja í málaflokkinn og markmið Sameinuðu þjóðanna hljóða upp á. Við erum ellefta ríkasta land í heimi og við verðum með tíð og tíma að sýna meiri metnað í því.

Einnig vekur athygli að ríkisstjórnin fellur frá loforði sínu um að fella niður virðisaukaskatt á bókum en stefnir þó á að auka beinan stuðning á móti. Hér þurfum við að fylgjast vel með því að það skiptir máli að útfærslan sem valin verði sé skilvirk. Ég bíð spenntur eftir að fá frekari upplýsingar frá menntamálaráðherra um þessi mál og efasemdir eftir samtöl hennar við þingmenn í dag. Hún skuldar okkur líka svör við því hvernig hún ætlar að bæta upp fyrirhugað tekjutap Ríkisútvarpsins og tryggja fjármagn til einkarekinna fjölmiðla, sem er sannarlega nauðsynlegt. Það er ekki gert í þessu frumvarpi.

Það sem þó er jákvætt er að ríkisstjórnarflokkarnir eru sammála okkur í Samfylkingunni um að barnabætur eigi ekki að skerðast langt undir lágmarkslaunum. Hins vegar eru einungis nokkrir mánuðir síðan ríkisstjórnarflokkarnir felldu slíka tillögu frá okkur, síðast í vor. Barnabótakerfið er enn fjársvelt enda hefur fjórðungur dottið út úr kerfinu undanfarin ár vegna skerðinga. Samkvæmt frumvarpinu á beinlínis að auka skerðinguna hjá millitekjufólki. Hafi maður 460.000 kr. eða meira á mánuði mun skerðingin bíta verulega.

Ég er hins vegar jákvæður út í þá áherslu sem færst hefur frá flatri tekjuskattslækkun yfir í að hækka persónuafsláttinn, en það er of lítið og betur má ef duga skal.

Hugmyndir um aðgerðir í umhverfismálum eru líka jákvæðar og löngu tímabærar þó að þær séu auðvitað ekki fullmótaðar. Hækkun kolefnisgjalds er þó enn lægri en lagt var fram í fjárlögum síðustu ríkisstjórnar haustið 2016. Mér finnst óverjandi að ekki fari meiri fjármunir til almenningssamgangna og ekkert í borgarlínu, sem vekur spurningar um hvort þekking ráðherrans á hinu byggða umhverfi sé eitthvað sérstaklega mikil.

Að lokum verð ég að benda á að forsendur fjármálaáætlunarinnar og að sumu leyti fjárlagafrumvarpsins eru sennilega nokkuð óraunsæjar. Þær byggja á því að hér verði 13 ára samfleytt hagvaxtarskeið, sem hefur aldrei gerst í sögu Íslandsbyggðar. Þá er gert ráð fyrir óbreyttu raungengi krónunnar næstu fimm ár, en raungengið hefur sjaldan verið eins sterkt og nú og sagan sýnir okkur að slíkt varir ekki að eilífu. Gengi krónunnar hefur bein áhrif á hagvöxt, verðbólgu, vexti, skatttekjur, einkaneyslu o.s.frv. og lítið verður þá eftir af svigrúmi fjárlaganna sem fjármálaráðherra sagði að væri þanið til hins ýtrasta. (Forseti hringir.) Frumvarpið er málamiðlun tveggja ólíkra flokka, flokka sem hafa tvö gjörólík markmið, Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna, og einkennist af moði. En (Forseti hringir.) líklega var það kaldhæðni örlaganna að sama dag og fjárlagafrumvarpið var lagt fram féll gengið verulega.