149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[22:17]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég hef einmitt fengið áskorun um að tala ekki í fullan tíma. Það er ekki mikil trú á því að það gangi eftir. En ég ætla nú að leggja mig fram um það samt sem áður.

Ég vil byrja á því að þakka fyrir umræðuna hér í dag. Ég er búin að fylgjast með henni allri og hefur þótt hún málefnaleg. Það hafa komið fram margar afskaplega góðar spurningar til ráðherranna og eins og gefur að skilja er fólk missátt við svörin, það er ósköp eðlilegt, en mér hefur fundist umræðan vera góð og ég er sammála hv. þm. Söru Elísu Þórðardóttur sem situr hér í salnum og sagði að hún fyndi að andrúmsloftið væri öðruvísi en í vor. Undir það tek ég. Mér finnst það vera jákvæðara, þ.e. almennt, burt séð frá því málefni sem við erum hér að fjalla um. Það er vel og verður til þess að umræðan verður betri.

Efnahagsstaðan er góð og ráðdeildin felst í því að við höfum verið að greiða niður skuldir undanfarin ár af því að við höfum haft tækifæri til þess að gera það eins og hefur verið komið inn á varðandi lífeyrisskuldbindingarnar. Allt skiptir þetta máli og þetta er ráðdeild í fjármálum.

Mig langar líka að tala um það sem mér finnst kannski skipta mestu máli í þessu frumvarpi, það er jöfnuðurinn. Við erum að reyna að auka jöfnuð eins og hér hefur komið fram. Það er mikilvægt fyrir okkur öll, ekki bara þá sem illa standa heldur alla í samfélaginu því að jöfnuður hefur jákvæðar afleiðingar. Það þarf að taka margt inn í þegar við tölum um jöfnuð. Sumir hafa talað bara um rúmlega 500 kr. í persónuafslátt. Auðvitað er það ekki eina aðgerðin og það á ekki að draga eitthvað eitt út fyrir sviga. Þegar talað er um jöfnunaraðgerðir erum við að tala um persónuafsláttinn. Við erum að tala um barnabæturnar. Við erum að tala um húsnæðisstuðninginn, niðurgreiðslu tannlæknakostnaðar fyrir eldri borgara og öryrkja og minnkandi greiðsluþátttöku í heilbrigðisþjónustu. Þetta skiptir allt saman máli. En því miður er það gjarnan þannig að eitthvað eitt er dregið út og sagt: Þið eruð ekkert að gera. Er þetta nú allur jöfnuðurinn? Auðvitað er það ekki svo. Ég held að þegar upp verður staðið sjái fólk það auðvitað. Ég hef líka sagt að við getum alltaf gert betur og við eigum að gera það. Á hverjum einasta tíma eigum við að reyna að gera betur því að það er ekkert samfélag svo gott að ekki megi bæta það.

Það eru þessi stóru mál. Við erum að efla heilbrigðisþjónustuna. Við erum að leggja mikla peninga í heilsugæsluna til þess að gera hana að fyrsta viðkomustað sem verður vonandi til þess að minni þörf verði fyrir sérhæfðu, dýru sjúkrahúsþjónustuna, þörfin fyrir hana verði ekki eins mikil og verið hefur undanfarið.

Við erum og ætlum okkur að verða fyrirmynd í loftslagsmálum. Hér var umhverfisráðherra síðasti ráðherrann í málaflokkum á dagskrá áðan. Við getum gert það, getum verið kyndilberar í loftslagsmálum alveg eins og við höfum verið það í jafnréttismálum. Þetta eru risavaxin skref sem við erum að stíga í þeim málaflokki. Því má ekki gleyma. Allt skiptir þetta máli.

Við erum líka að leggja til töluvert aukna fjármuni í menntamálin þótt öðru sé haldið fram, það er bara þannig. Við erum að auka útgjöld á hvern nemanda um 7% á milli áranna 2018 og 2019. Við megum ekki gleyma því að nemendum er að fækka. Við erum líka að auka framlög til höfuðsafnanna okkar þriggja. Það hefur lítið verið talað hér um menningu, eiginlega bara ekki neitt. Við erum að auka framlög til Kvikmyndasjóðs. Við erum líka að auka fjármuni til nýsköpunar sem kemur bæði í gegnum menntamálaráðherra og nýsköpunarráðherrann okkar. Við erum að fara inn í framtíðina með þau verkefni sem við þurfum á að halda og þetta eru alla vega fyrstu skrefin í því að reyna að gera gott samfélag enn betra.

Ég held, virðulegi forseti, að það sem ég hef hér farið yfir sýni fingraför Vinstri grænna eins og ég sagði í gær og segi aftur, því að ég er ekki sannfærð um að fjárlagafrumvarpið liti svona vel út ef við værum ekki í þessari ríkisstjórn. Það skiptir auðvitað máli þegar ólíkir hópar nálgast að við reynum að mætast. Ég tel að það hafi gengið vel hérna.

Ég tek undir með með hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra um að vinnan við fjárlagafrumvarpið gangi nokkuð hratt og vel fyrir sig. Ég held að það ætti alveg að geta gengið. Ég tek líka undir þau sjónarmið að við eigum að reyna að gera umræðuna dýpri strax í upphafi með því að reyna að afhenda fjárlaganefndarfólki frumvarpið fyrr. Ég held að það væri gott.

Ég hlakka til starfsins fram undan í nefndinni. Ég býst við að það verði gott. Það er mikil dagskrá fram undan hjá fjárlaganefnd sem búið er að skipuleggja eins langt fram í tímann og við getum séð, þ.e. fram undir jól. Ég hef trú á því að við, félagar mínir í fjárlaganefnd sem hér sitja, stöndum saman að því að vinna málið ekki bara hratt heldur líka vel. Mér finnst umræðan hafa borið þess merki í dag að við erum svo sannarlega á réttri leið.