149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[22:23]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég skal hrósa þér. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir kláraði hérna á sex mínútum. Ég legg það ekki í vana minn að þakka fyrir umræðuna af því að mér finnst það sjálfsagt en ég ætla samt að þakka fyrir þátttöku stjórnarliða í þessari umræðu, bæði í andsvörum við ráðherra og almennt, það er til eftirbreytni. Takk fyrir.

Ég ætla að endurtaka aðeins og ítarlegar það sem ég sagði í andsvari við fjármálaráðherra áðan um það sem vantar í frumvarpið. Það kom í ljós í andsvörum við ráðherra að það var ýmislegt á leiðinni sem virðist ekki vera í fjárlagafrumvarpinu, t.d. endurgreiðsla bóka hjá menntamálaráðherra, hafrannsóknaskip hjá sjávarútvegsráðherra, örorkulífeyrir hjá félagsmálaráðherra, svo voru það Dýrafjarðargöngin, þau eru ekki inni í bundnu útgjöldunum, þau virðast vera inni í útgjaldasvigrúminu þannig að það sem er þegar búið að fullfjármagna við Dýrafjarðargöngin er einhvern veginn notað til þess að segja að verið sé að bæta meira í samgöngur en annars væri, miðað við allt sem stendur þarna.

Það er ýmislegt ónákvæmt, það kom fram að það er ekki sama verðlag á tölunum í fjárlögum 2018 og frumvarpi fyrir 2019 sem gerir samanburðinn erfiðan af því að það vantar verðbólguna inn í. Þegar ríkisstjórnin segir: Við erum að auka framlögin um þetta mikið í eitthvert málefnasvið eru þau að monta sig af verðbólgunni. Það er eitthvert svona verðbólgumont inni í útgjaldaaukningunni sem er dálítið áhugavert.

Þriðja atriðið í umræðunni sem ég myndi vilja koma aftur að er umræðan um skuldir. Þetta var dálítið merkileg umræða vegna þess að við erum með það mjög vel skilgreint hversu miklar peningalegar skuldir við erum með, hverjir vextirnir eru af þeim, vaxtakostnaðurinn o.s.frv. Það sem við erum ekki með eins nákvæmt er í hvaða skuld við erum gagnvart þeim kerfum og innviðum sem við höfum látið drabbast niður á undanförnum árum. Það er ákveðin skuld líka sem við þurfum að endurgreiða en það er mjög óljóst hver kostnaður okkar er af þeirri skuld.

Ef við hefðum mun nákvæmari tölur um þann kostnað myndum við kannski frekar velja að byggja upp innviði en að borga niður peningalegu skuldirnar. Ef við gætum séð þetta væri ekki ólíklegt að í sumum tilvikum myndi það borga sig betur til lengri tíma að byggja t.d. upp heilbrigðiskerfið hraðar frekar en að borga niður beinar peningalegar skuldir þegar allt kemur til alls. Áhugaverður punktur til að huga að í framtíðinni.

Í fjórða lagi er fjárlagafrumvarpið, eins og það lítur út núna, ég orðaði það þannig að það væri tómur tékki en það er ekki alveg rétt. Ef ég nota gamalt líkingamál sem fólk skilur kannski ekki vel lengur erum við að samþykkja tékka sem er ritaður á handhafa. Gjörið svo vel, hérna eru 4 milljarðar í örorku-eitthvað. En ríkisstjórnin segir okkur ekkert hvað þetta eitthvað er, heldur að hún ætli að nota þetta til að láta öryrkja fá peninga á einn eða annan hátt með einhverri endurskipulagningu o.s.frv. Vandamálið er að Alþingi vill kannski ekki láta ríkisstjórnina fá 4 milljarða í það sem hún kemur til með að ákveða að gera. Aðgerðirnar sem verða ákveðnar eru kannski Alþingi ekki að skapi en þá er búið að veita fjárheimildina. Þetta er algjörlega öfug röð. Ríkisstjórnin á fyrst að koma og segja: Þetta ætlum við að gera, það kostar þetta mikið, við fáum þetta mikið út úr því. Fáum við peninginn til þess að gera það? Það er rétt röð.

Á heildina litið eru öll fjárlögin svona. Það eru markmið og aðgerðir sem ríkisstjórnin ætlar að leggja í og það hefur líka komið fram hérna að það eru ýmsar aðgerðir sem eru ekki lengur í fjárlögunum en eru í fjármálaáætluninni og væntanlega eru ýmsar aðgerðir hvorki í fjármálaáætluninni né fjárlögunum sem ríkisstjórnin er samt að kosta til og það er mjög erfitt að sjá það. Eru þetta nýjar aðgerðir eða er þetta unnið innan ramma? Þetta flæðir allt fram og til baka og það er uppi mikil óvissa í rauninni um hvað er verið að biðja. Þegar allt kemur til alls virðist vera sem við samþykkjum þennan tékka upp á 900 milljarða, réttum ríkisstjórninni hann og segjum: Þið gerið nokkurn veginn hvað sem þið viljið við þetta, jú, haldið ykkur innan ramma hvers málefnasviðs. Allt umfram það virðist vera voðalega frjálslegt sem gerir hitt lykilhlutverk Alþingis mjög erfitt, þ.e. eftirlit með framkvæmd fjárlaga, hvort við fáum það sem við erum að veita fjárheimildir til, hvort það sem við fáum er peninganna virði, hvort við séum að fara vel með almannafé.

Það er nauðsynlegt að vita í hvað peningarnir eiga að fara áður en við gefum heimildina svo ekki sé hægt að segja eftir á: Já, við notuðum peningana í þetta og það gekk rosalega vel. Ég veit ekki hvort það sé rétt eða ekki því að það er eftirámat. Eftirámat þýðir ekki neitt, það segir bara til um hvernig mér leið og þar fram eftir götunum.

Fimmta og síðasta málið sem ég ætlaði að minnast á er loftslagsmálin en í umræðunni kom kolefnisbinding upp nokkrum sinnum. Þá voru nokkrir þingmenn að velta fyrir sér hvað Katla lætur frá sér mikið af koltvísýring. En það sem jörðin gerir er bara það sem jörðin gerir, það kemur okkur ekkert við. Við erum að einbeita okkur að því hvað menn gera og þeir bæta við það sem jörðin gerir náttúrulega. Það að grafa skurði og ræsa fram mýrar býr til ákveðna losun, það er mannanna verk. Ef við ætlum að kolefnisjafna allt annað sem við gerum með því að moka aftur ofan í skurðinn virkar það ekki. Þá erum við bara búin að gera það hlutlaust sem við skemmdum til að byrja með. Við getum ekki notað það til að mínusa allt annað og það sem bílar losa frá sér stöðugt. Þarna var bara mínus tekinn burt og svo lokað aftur, mokað ofan í skurðinn, og það er orðið núll. Það jafnar ekki annað út. Þá værum við með tvöfalt bókhald ef slíkt myndi teljast á móti útblæstri bíla líka. Ég myndi vilja biðja þingmenn að kynna sér aðeins þær skýrslur sem hafa verið gefnar út hvað þetta mál varðar, áður en þeir fara að tjá sig um það hvernig Katla skemmir þetta allt fyrir okkur. Jörðin gerir bara sitt. Við höfum áhyggjur af því sem við bætum við og það er ekki lítið, alls ekki lítið.

Í lokin vil ég segja að þetta er áhugaverð uppsetning á umræðunni. Ég myndi kannski mælast til þess að upphafið á umræðunni yrði aðeins lengra, fjármálaráðherra og talsmenn fengju aðeins lengri tíma í upphafi umræðunnar til þess að leggja upp og fara yfir fjárlögin, 15 mínútur og 10 mínútur voru tiltölulega lítið. Það væri ágætt að taka síðasta hlutann kannski í upphafi dags næst en ekki svona í lok dags, hver veit. En þetta var áhugaverð tilraun sem ég held að hafi tekist mjög vel.