149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[22:31]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Við erum hér að ljúka 1. umr. um fjárlagafrumvarpið í eins konar samantektarræðum. Það má skipta þessu upp í annars vegar form og svo efnisinnihald umræðunnar. Ég ætla að taka undir með þeim hv. þingmönnum sem hafa hrósað því formi sem hefur verið á umræðunni og mér finnst hafa gefist vel, herra forseti. Efni umræðunnar hefur auðvitað markast svolítið af uppsetningunni.

Það er eðlilegt að stóra mynd ríkisfjármálanna sé undir í 1. umr. eins og var reyndin hér fyrri dag umræðunnar. Tenging efnahagsmála almennt var mjög áberandi í umræðunni, rætt um stöðu þjóðarbúsins og áhrif opinberra fjármála á hagkerfið, um hagstjórn, um hagspár, um hagvöxt og hagvaxtarhorfur, um þróun gengis og áhrif á útflutning og stórar atvinnugreinar sem byggja að miklu leyti afkomu sína á útflutningi, um peningamál önnur en gjaldmiðil og gengi, vexti, verðtryggingu, vísitölur, um kjarasamninga og innlegg sem finna má í frumvarpinu um komandi kjaraviðræður en einnig var farið yfir útgjaldaaukningu og hvert fjárveitingunum er beint. Eins hafa menn rætt þær skattbreytingar sem boðaðar eru og tengjast jafnframt breytingum á tekjuhlið fjárlaga sem er að finna í öðrum þingskjölum, í máli 2 þar sem fjallað er um ýmsar forsendur fjárlaga fyrir árið 2019 og í tveimur öðrum málum, frumvörpum sem kalla á breytingar á ýmsum lögum og verðlagsuppfærslu margvíslegra gjalda. Þessi þrjú mál eru í beinum tengslum við fjárlagafrumvarpið, eru nauðsynlegar breytingar og forsendur þess og fjárlaga sem bíður frekari umræðu og afgreiðslu í þinginu og hv. efnahags- og viðskiptanefndar.

Í umræðunni í dag, seinni dag 1. umr. um fjárlagafrumvarpið, átti sér stað samtal við ráðherra hæstv. ríkisstjórnar um þau málefnasvið sem undir hvern og einn heyra. Lög um opinber fjármál eru býsna skýr um þá ábyrgð sem hver ráðherra ber á sínu málefnasviði. Sú umræða var kjarnaðri, virðulegi forseti, eðli máls samkvæmt og sneri meira að aðgerðum og markmiðum, einstökum útgjöldum og fjárhæðum þeim eyrnamerktum. Mér fannst þessi umræða góð í kjölfarið á umræðum um stóru myndina og spegla um margt pólitíkina meira.

Það er hægt að draga fram marga þætti sem komu fram hér í umræðunni og flesta vil ég segja jákvæða. Það er staðreynd að staða ríkissjóðs er traustari nú en um árabil og það birtist í fjárlagafrumvarpinu. Það er staða sem gerir okkur kleift að ráðast í aukna uppbyggingu innviða og auka útgjöld til okkar stóru grunnkerfa. Mér fannst vera samhljómur þvert á flokka um nauðsyn þess að auka útgjöld til heilbrigðismála, velferðarmála, menntamála, umhverfismála, samgöngumála. Það kom mér eilítið á óvart að það var reyndar ekki alveg sami samhljómurinn þegar kom að aðgerðum í loftslagsmálum, eins og ég hefði fyrir fram trúað að yrði.

Það var líka góður samhljómur um aðgerðir sem hér eru boðaðar til að treysta félagslegan stöðugleika, ég nefni hækkun á barnabótum, aukningu í húsnæðisstuðningi, lækkun tryggingagjalds fyrir atvinnulífið og það var almennt gerður góður rómur að þeim aðgerðum sem eru til þess fallnar að bæta kjör hópa með lægri tekjur og millitekjuhópa.

Jafnframt voru áberandi í umræðunni áhyggjur af því að útgjöld séu að aukast mikið sem þau hafa sannarlega verið að gera á liðnum árum. Jafnframt kom fram það sjónarmið að óvarlegt sé að ætla að hægt verði að viðhalda jafn miklum útgjaldavexti ár frá ári á komandi árum og um það fannst mér almennt í umræðunni vera samhljómur. Þess vegna er mikilvægt að styrkja og fara yfir tekjuöflunarkerfin en ekki síður mikilvægt er eftirlit og endurmat útgjalda, markvisst og reglulega, og að menn skoði nákvæmlega og byggi upp mælikvarða á það í hvað útgjöldin fara, í hvað skattpeningarnir fara og hverju það skilar. Þetta er mikilvægt, virðulegi forseti, til þess að tryggja til framtíðar sjálfbærni ríkisfjármála sem á auðvitað að vera sameiginlegt markmið okkar allra.

Heilt yfir, herra forseti, situr eftir gagnleg og góð umræða, mér finnst hún yfirveguð, sanngjörn, mér fannst formið koma vel út en ekki síst er hún gott veganesti fyrir hv. fjárlaganefnd. Við í hv. fjárlaganefnd tökum frumvarpinu fagnandi og til frekari greiningar fyrir 2. umr. Þessi umræða er gott veganesti fyrir þá vinnu.