149. löggjafarþing — 5. fundur,  17. sept. 2018.

lyfjaöryggi.

[15:06]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langar að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra um lyfjaöryggi. Að undanförnu hefur nokkuð borið á því að algeng og lífsnauðsynleg lyf hafa ekki fengist í apótekum og þess eru dæmi að sjúklingar hafi lent í vandræðum út af því.

Hér er vel að merkja ekki um að ræða lyf sem hægt er að misnota heldur lyf sem hjartasjúklingar þurfa á að halda, gigtarsjúklingar, fólk með psoriasis og fólk með skjaldkirtilssjúkdóma. Seloken, metoprolol, pranolol, digoxin, isoptin, furadantin, betnovat, florinef, levaxin, þetta eru allt dæmi um nöfn á lyfjum sem illa er hirt um að séu ávallt til.

Það þarf ekki að hafa mörg orð um þau óþægindi sem þessi skortur veldur sjúklingum og sálarangist sem bætist við aðra sjúkdóma.

Mig langar í þessu sambandi að spyrja hæstv. ráðherra hvort hún hafi haft veður af þessu vandamáli, hvort þess sé að vænta að tekið verði á því. Er hugsanlega hægt að herða kröfur sem gerðar eru til lyfjainnflytjenda og lyfsala almennt? Mætti hugsa sér að heimildir til lyfsölu verði með einhverju móti tengdar við að heildsalinn sinni ávallt skyldum sínum við sjúklinga og í framhaldinu að hægt sé að missa þetta leyfi komi það ítrekað fyrir að heildsali sinni ekki grundvallarskyldum sínum við notendur heilbrigðisþjónustunnar og sjái ekki til þess að lyf sem læknar ávísa séu ávallt til, að lífsnauðsynleg lyf séu ávallt á markaðnum?