149. löggjafarþing — 5. fundur,  17. sept. 2018.

lyfjaöryggi.

[15:08]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa fyrirspurn. Ég verð að segja að sjálf var ég býsna hissa þegar ég áttaði mig á því hvað þetta er algengt vandamál á Íslandi. Maður stendur einhvern veginn í þeirri trú að við þurfum ekki að búa við lyfjaskort þegar um er að ræða algeng og mikilvæg lyf. Það vill svo til að það er væntanlegt nýtt frumvarp sem er heildarendurskoðun á lyfjalögum þar sem við tökum sérstaklega á þessu atriði í þeim anda sem hv. þingmaður nefnir, þ.e. að það sé skýrari áskilnaður gagnvart heildsalanum um að skila þessum lyfjum inn á markaðinn.

Ég hef haft veður af þessu, já, eins og hv. þingmaður spyr. Það sem meira er er að ég hef óskað eftir því við skrifstofu gæða og forvarna að þetta mál verði sérstaklega tekið fyrir á næsta samráðsfundi með Lyfjastofnun þar sem verði farið yfir það hverju sætir en kannski fyrst og fremst hvað er til ráða. Þegar við erum að tala um lyf að jafnaði höfum við tilhneigingu til að tala fyrst og fremst um ný lyf og dýr lyf. En því miður er það algengara en maður kannski áttar sig á fyrir fram að það er skortur á lyfjum sem eru bæði miklu ódýrari og er komin töluverð reynsla á og eru óínáanleg, ófáanleg.

Ég vil bara ítreka þakkir mínar til þingmannsins fyrir að vekja máls á þessu og brýna mig til dáða í þessu efni. Ég hef þegar óskað eftir að þetta mál verði á dagskrá næsta samráðsfundar með Lyfjastofnun.