149. löggjafarþing — 5. fundur,  17. sept. 2018.

lyfjaöryggi.

[15:10]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Ég þakka hæstv. ráðherra svör. Í lyfjalögum eru ákvæði um leyfi til innflutnings þar sem kemur fram að slíkt leyfi sé bundið því að sölunni veiti forstöðu lyfjafræðingur sem hafi starfsleyfi hér á landi og sé búinn húsnæði, tækjum og starfsliði, og fullnægi kröfum um geymslu og meðferð lyfja. Sum sé, hann þarf að hafa bréf upp á þetta, hann þarf að hafa próf og lager, en það eru ekki nein ákvæði um það að hann þurfi að sinna þessum grundvallarskyldum sínum við notendur heilbrigðisþjónustunnar.

Þetta er kannski angi af stærra vandamáli sem er það að ávallt virðist gert ráð fyrir því að notendur heilbrigðisþjónustu séu fyrst og fremst að nota heilbrigðisþjónustuna í því skyni að misnota hana og að notendur heilbrigðisþjónustunnar séu misnotendur heilbrigðisþjónustu og þurfi einhvern veginn að sanna að þeir séu það ekki. Ég vænti úrbóta og bind vonir við þær.