149. löggjafarþing — 5. fundur,  17. sept. 2018.

nýting fjármuna heilbrigðiskerfisins.

[15:17]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Virðulegur forseti. Hæstv. ráðherra svaraði á mjög almennum nótum um heildstæða nálgun. En mun ráðherrann beita sér?

Í júní á þessu ári voru 214 manns á biðlista eftir mjaðmaaðgerðum, sem höfðu beðið lengur en í þrjá mánuði og áttu þar af leiðandi rétt á að leita eftir þeirri þjónustu erlendis. 472 voru á biðlistum eftir hnéaðgerðum og áttu fyrir vikið rétt á að leita til útlanda eftir þjónustunni.

Mun hæstv. fjármálaráðherra beita sér fyrir því að fólk eigi í auknum mæli kost á því að fara í slíkar aðgerðir hér á landi? Það er ekki að ástæðulausu sem ég spyr, hæstv. ráðherra, því að við erum nýbúin að sjá birtast frumvarp þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem virðist beinlínis vera sett til höfuðs þessari starfsemi, þar sem talað er um menn megi ekki hafa ábata af því — kannski ekki laun? Ég veit það ekki — af því að lina þjáningar fólks á Íslandi. Það vantar bara að bætt yrði við „ef menn gera það í Svíþjóð er það í lagi“.

Mun hæstv. fjármálaráðherra beita sér fyrir því að fleira fólk fái bót meina sinna, (Forseti hringir.) fái lausn á vanda sínum hér á landi?