149. löggjafarþing — 5. fundur,  17. sept. 2018.

kröfur um lægri húsnæðiskostnað í komandi kjarasamningum.

[15:20]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Mig langar að beina spurningu til hæstv. húsnæðismálaráðherra, en húsnæðismál eru eitt af þeim málasviðum samkvæmt forsetaúrskurði sem eru á ábyrgð félags- og jafnréttismálaráðherra.

Það var gerð könnun innan VR, stærsta verkalýðsfélags landsins, um hvað það er sem félagsmenn vilja setja á oddinn, setja í forgang í kjaraviðræðum þess verkalýðsfélags á komandi kjaravetri. Það hefur oft verið talað um að stjórnvöld geti komið að málinu og hæstv. ráðherra hefur nefnt það og nefndi það í stefnuræðu sem er gott. Það kemur líka fram í stjórnarsáttmálanum sem allir stjórnarflokkarnir hafa samþykkt. Þar segir, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir samstilltu átaki með aðilum vinnumarkaðarins til að tryggja að kjarasamningar skili launafólki og samfélaginu raunverulegum ávinningi.“

Raunverulegur ávinningur er kominn í ljós, þ.e. hvað myndi vera raunverulegur ávinningur fyrir þetta stærsta verkalýðsfélag landsins, VR. Í könnuninni kemur fram að ein krafan er um umbætur í húsnæðismálum sem miðast við að ná niður húsnæðiskostnaði.

Nú höfum við séð hvað ríkisstjórnin er að leggja til í sínu fjárlagafrumvarpi og formaður VR, eftir að það kom út, var ekki ánægður með það sem hann sá þar og sagði, með leyfi forseta:

„Ef þetta er einhver niðurstaða held ég að stjórnvöld geri sér grein fyrir að það stefnir í gríðarlega hörð átök. Okkar félagsmenn munu aldrei samþykkja þetta.“

Hann talar svo um að það sé að koma fram þeirra stefnuskjal og nú er það komið fram með stuðningi eða aðkomu 3.600 félagsmanna á lýðræðislega virkan hátt innan félagsins. Þar er þetta, að ná niður húsnæðiskostnaði.

Mig langar að spyrja hæstv. húsnæðismálaráðherra hvað það er sem hann sér fram á að hann geti gert — og samkvæmt stjórnarsáttmálanum ætlar ríkisstjórnin að beita sér fyrir samstilltu átaki með aðilum vinnumarkaðarins — til þess að ná niður húsnæðiskostnaði m.a., fyrst að það er ein krafan sem er komin fram (Forseti hringir.) frá þessu stærsta verkalýðsfélagi landsins.