149. löggjafarþing — 5. fundur,  17. sept. 2018.

kröfur um lægri húsnæðiskostnað í komandi kjarasamningum.

[15:22]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Þór Ólafssyni fyrir þessa fyrirspurn og tek undir það með honum sem fyrirspyrjanda og líka með formanni VR að ég held að húsnæðismálin verði fyrirferðarmesti málaflokkurinn í komandi kjarasamningaviðræðum og í stjórnmálum almennt vegna þess að við sjáum að það þarf róttækari nálgun á þann málaflokk en verið hefur. Ég vil bæta því við að ríkisstjórnin er að stíga skref í fjárlagafrumvarpi næsta árs með 800 millj. kr. aukningu á milli ára í almennar íbúðir. Hins vegar þarf róttækari breytingar.

Ríkisstjórnin er að undirbúa aðgerðir til þess bæði að efla stjórnsýsluna og slagkraftinn í málaflokknum. Ég á von á því að það komi fram á næstunni. Það er líka í undirbúningi og hefur verið mjög gott samtal og samstarf við verkalýðshreyfinguna, bæði við VR, ASÍ og aðra þá aðila sem þarna koma að borði, um að móta hvaða atriði það eru sem við í sameiningu þurfum að ræða á næstu vikum og mánuðum varðandi húsnæðismálin og sérstaklega leigumarkaðinn.

Hvernig getum við raunverulega aukið uppbyggingu á óhagnaðardrifnum leigufélögum sem raunverulega eru óhagnaðardrifin líkt og þekkist víða á Norðurlöndunum? Hvernig getum við farið í það að auka lóðaframboð í Reykjavík, á höfuðborgarsvæðinu og í nágrannasveitarfélögum við höfuðborgarsvæðið? Hvernig getum við auðveldað fjármögnun þessara leigufélaga sem raunverulega eru óhagnaðardrifin og með aðkomu stéttarfélaga og annarra? Það eru allt saman atriði sem við erum núna að hefja samtal um við verkalýðshreyfinguna. Það er fullur pólitískur vilji til þess að fara af heilindum inn í það samtal. Ég á von á því á næstu dögum muni verða teknar einhverjar ákvarðanir um með hvaða hætti því samtali verður háttað. Ég hlakka mjög til þess samstarfs vegna þess að ég veit að þetta er gríðarlega mikilvægt mál og þykist vita að hv. þingmaður sé sammála því.