149. löggjafarþing — 5. fundur,  17. sept. 2018.

kröfur um lægri húsnæðiskostnað í komandi kjarasamningum.

[15:26]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég held að þegar Alþingi samþykkti á sínum tíma lög um almennar íbúðir og við stigum þar mjög merkilegt skref með stofnframlögum til almennra íbúða, þar sem sveitarfélög, stéttarfélög og aðrir koma að, þá held ég að í framhaldi af því hafi hugarfar almennt breyst í þessum málum. Núna held ég að menn séu miklu jákvæðari fyrir því að fara í aðgerðir til þess að efla óhagnaðardrifin leigufélög. Ég endurtek að það þurfi ekki einungis að vera stéttarfélög sem koma að því, það geta verið sveitarfélög og aðrir aðilar. Ég held að mjög óábyrgt væri á þessu stigi að segja nákvæmlega hvað samtal við verkalýðshreyfinguna myndi í þessum efnum þýða fyrir lægri húsnæðiskostnað. Það verður bara að koma í ljós. En ég ítreka að hægt er að gera það með margvíslegum hætti, með hagkvæmum fjármögnunarleiðum, ræða það, og með stofnframlögum. Það er líka gríðarlega mikilvægt að sveitarfélögin komi af krafti inn í þetta með auknu lóðaframboði. Þar horfi ég m.a. til Reykjavíkurborgar og hvet hv. þingmann til að láta þrýsta á að Reykjavíkurborg komi af krafti inn í þetta. En við eigum líka að horfa á sveitarfélögin umhverfis höfuðborgina (Forseti hringir.) vegna þess að höfuðborgarsvæðið er að stækka og þetta svæði á allt að vera undir í þessu efni.