149. löggjafarþing — 5. fundur,  17. sept. 2018.

greiðsluþátttaka Sjúkratrygginga í tannréttingum.

[15:27]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf):

Herra forseti. Stundum er talað um að heilbrigðiskerfið hér á landi sé það besta í heimi. Allir eiga að geta notið og fengið nauðsynlega læknishjálp án tillits til efnahags. Hér ætla ég að taka til umfjöllunar greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga í tannréttingum þeirra sem fæðast með klofinn góm eða vör og beini fyrirspurn til hæstv. heilbrigðisráðherra.

Það á auðvitað ekki að fara eftir efnahagslegri stöðu foreldra hvernig tekið er á fæðingargöllum barna sem fæðast hér á landi. Því virðist þannig háttað að Sjúkratryggingar greiða ekki allar slíkar nauðsynlegar aðgerðir sem ætlað er að koma í veg fyrir alvarlega skekkju í kjálka af völdum þessa galla þegar barnið eldist. Foreldrar með börn sem fæðast með klofinn góm og klofna vör ganga sjálfkrafa inn í þessar tannréttingar og Sjúkratryggingar greiða 95% af kostnaðinum sem hlýst vegna tannréttingum af völdum þessa fæðingargalla.

Hinn hópurinn, börnin sem eru bara með klofinn góm fá hana hins vegar ekki greidda að neinu leyti af Sjúkratryggingum og þurfa foreldrarnir að greiða hana alfarið úr eigin vasa ef þau kjósa að leitast við að koma í veg fyrir að skekkju í gómi, krossbit, undirbit eða yfirbit eða skúffu, sem eru algengir fylgifiskar þessa galla. Þá er það orðin spurning um efnahag foreldranna hvernig líðan og heilsu barnsins vindur fram. Sumir hafa einfaldlega ekki efni á þessum tannréttingum.

Þess vegna vil ég spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra: Hvað hyggst hæstv. ráðherra gera til að rétta hlut þessa hóps? Foreldrar sem eiga skarðað barn kjósa fyrir börn sín í öllum tilvikum að fara út í þá snemmtæku íhlutun sem tannréttingar eru.