149. löggjafarþing — 5. fundur,  17. sept. 2018.

greiðsluþátttaka Sjúkratrygginga í tannréttingum.

[15:31]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir svör hennar og ég er ánægður að heyra að hún tekur jákvætt og vel undir þessa spurningu mína. Mjög ánægður að heyra það. Svo virðist vera sem lögin sem þessi reglugerð frá 2013 er byggð á hafi ekkert breyst síðustu ár. En reglugerðinni var breytt 2013 sem veldur því að þessi hópur fellur þarna á milli stafs og hurðar. Þess vegna spyr ég líka: Af hverju var þessari reglugerð breytt sem kom svona illa við þennan hóp foreldra og barna?

Þetta er ekki stór hópur. Tölfræðin segir að eitt slíkt barn fæðist á ári hérlendis, þess vegna er þetta kannski ekki sá þrýstihópur sem hefur getað þrýst á leiðréttingu á þessari ósanngirni sem hún sannarlega virðist vera. Foreldrar barna með þennan fæðingargalla sem hafa ekki efni á þessum aðgerðum þurfa því að sitja og horfa upp á vanda barnsins síns vaxa ár frá ári með tilheyrandi sálarkreppu barnsins og foreldranna, sem (Forseti hringir.) endar svo á einn veg að viðkomandi þarf á fullorðinsárum að fara í dýra sársaukafulla og erfiða aðgerð sem ríkið greiðir fyrir.

Ég held ég hafi nú ekki fengið allan þann tíma sem ég átti að fá, herra forseti.

(Forseti (SJS): Það heldur forseti. Ein mínúta er bara nákvæmlega ein mínúta að lengd.)