149. löggjafarþing — 5. fundur,  17. sept. 2018.

samningar við sérfræðilækna.

[15:36]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er sjálfsagt að segja það einu sinni enn hérna, ég hef sagt það margoft áður í fjölmiðlum og annars staðar, að það er auðvitað ekki góð ráðstöfun á opinberu fé þegar við sitjum uppi með kostnað vegna aðgerða sem hægt væri að gera hér heima fyrir þær sakir einar að sjúklingar hafa rétt til þess að fara til útlanda og við fáum þrefaldan reikning. Væntanlega eru allir sammála um þetta, en það dugar bara ekki að svara þessari spurningu. Það þarf aðeins að fara dýpra.

Við erum með tæpan 1 milljarð í fjárlögunum núna fyrir næsta ár til að stytta biðlista. Það er grunnvandinn. Ég held að það væri ágætt að menn byrjuðu á að spyrja sig: Af hverju eru að myndast biðlistar? Hvert getur hlutverk einkarekinna heilbrigðisstofnana í landinu verið til að hjálpa til við að koma í veg fyrir að þeir myndist? Hvernig getum við fengið hámarksnýtingu fyrir það fé sem er úr að spila í heilbrigðismálum almennt? Ríkið þarf að geta stýrt nýtingu fjármuna, bæði þegar það kemur að kaupum á heilbrigðisþjónustu af opinberum stofnunum, og þar er ég t.d. að vísa til Landspítalans, og af öðrum. Við þurfum að geta skilgreint það vel til hvers við ætlumst af Landspítalanum þegar við tryggjum honum fjárveitingar og það sama á að gilda annars staðar í heilbrigðiskerfinu hjá öðrum stofnunum, sama hvar þær eru á þessu einkarekna litrófi, frjáls félagasamtök, einkareknar stofur í eigu lækna, heilbrigðisstofnanir eða heilsugæslurekstur eða hvað það er.

Ég er þeirrar skoðunar að við séum, eins og ég sagði áðan, með aðeins of stagbætt kerfi og það sé þörf fyrir heildarstefnumótun. Ég fagna því að ráðherrann vinni að henni núna, það skiptir máli að það takist góð samstaða um heildarstefnumörkunina. Ég vil að lokum koma því að hér að það er í gildi samningur við sérfræðilækna, honum hefur ekki verið sagt upp og það er fullur vilji hjá (Forseti hringir.) ráðherranum, sem hún gæti svo vel svarað fyrir hér, til að ná að nýju samningum (Forseti hringir.) en ég tek hins vegar undir að það er mikilvægt að það fari að gerast.