149. löggjafarþing — 5. fundur,  17. sept. 2018.

samningar við sérfræðilækna.

[15:38]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Forseti. Ég þekki það nú reyndar frá fyrri störfum að til að ná samningum þarf að hefja samningaviðræður, sem mér skilst að hafi nú ekki hafist enn þá þrátt fyrir að aðeins þrír mánuðir séu þar til að þessir samningar renna út. Þannig að ég hef vissulega áhyggjur af því hversu seint er farið af stað og hversu mikla óvissu ríkisstjórnin skapar með því að neita að hefja samningaviðræður við sérfræðilækna þegar aðeins þrír mánuðir eru til stefnu.

Það verður ekki undan því vikist að segja og það er alveg augljóst að það er stefnuleysi í þessum efnum, það er ekki hægt að nota önnur orð um stefnu ríkisstjórnarinnar. Hér er einhvern veginn allt stopp, allt í frosti þar til ríkisstjórnin hefur mótað sér stefnu í málaflokknum. Ekki eru gerðir samningar við sérfræðilækna, ekki er bætt við nýjum sérfræðilæknum á gildandi samninga.

Í ljósi þess að þetta er með ærnum tilkostnaði á endanum fyrir ríkissjóð sem leiðir til þess að við sendum sjúklinga í mun dýrari aðgerðir erlendis, og það sem er auðvitað dýrast er að sjúklingar fá ekki þá þjónustu sem þeir þurfa, hlýt ég að spyrja: Ætlar hæstv. ráðherra að beita sér fyrir breytingu á þessari stefnu ríkisstjórnarinnar eða mun hann láta greinaskrif samflokksmanna sinna duga?