149. löggjafarþing — 5. fundur,  17. sept. 2018.

samningar við sérfræðilækna.

[15:39]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Hér er verið að spyrja mig um svið sem heyrir undir annan ráðherra. Ég skal svara því fyrir mitt leyti. Auðvitað þarf að ná samningum. Ég tel að það verði gert. Ég er sammála því að þar til nýir samningar hafa fengist er ákveðin óvissa sem er óþægileg. Ég heyri eins og við öll að þeir sem þar eiga í hlut myndu vilja eyða þeirri óvissu sem fyrst. Ég held að það eigi einfaldlega við um okkur öll, líka heilbrigðisráðherrann og -ráðuneytið. Það er langæskilegast að fá niðurstöðu sem fyrst.

Ég er líka þeirrar skoðunar að við eigum að hafa umhverfi hér heima sem laðar heim til Íslands alla þá lækna sem vilja gjarnan búa hér og byggja framtíð fyrir sínar fjölskyldur, að það sé aðlaðandi umhverfi á Íslandi í einu og öllu.

Það er viðvarandi verkefni að hlúa að heilbrigðiskerfinu. Markmiðið á að vera tekið út frá sjónarmiðum sjúklinganna og hvernig við tryggjum sem besta (Forseti hringir.) heilbrigðisþjónustu, jafnan aðgang fyrir Íslendinga í nýrri heilbrigðisstefnu til framtíðar.