149. löggjafarþing — 5. fundur,  17. sept. 2018.

stefnumótun í heilbrigðismálum.

[15:43]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum áhuga á heilbrigðisstefnu. Ég ræddi þetta við nokkra þingmenn hér á föstudaginn undir umræðu um minn kafla í fjárlagafrumvarpinu, en hv. þingmaður var ekki í húsi þá. Þá kom það fram að tímalínan liggur þannig í þessum efnum að verið er að vinna að heilbrigðisstefnu í ráðuneytinu. Það verður haldinn fundur með stofnunum ráðuneytisins núna 2. og 3. október um þessi mál og 2. nóvember verður opið heilbrigðisþing þar sem verður fjallað um drögin að heilbrigðisstefnunni sem þá munu liggja fyrir. Eins og glöggir lesendur þingmálaskrár ríkisstjórnarinnar hafa væntanlega rekið augu í er líka gert ráð fyrir þingsályktunartillögu til Alþingis á vorþingi með heilbrigðisstefnu sem væntanlega verður þá til afgreiðslu Alþingis. Ég vænti þess að þar verði þverpólitísk aðkoma skýr, því ég tel að það séu miklu fleiri sameiginlegir tónar í afstöðunni til heilbrigðisstefnu heldur en við látum stundum.

Hv. þingmaður spyr um og telur hérna upp nokkurn lista af þjónustu sem hún hefur áhyggjur af á meðan verið er að vinna að heilbrigðisstefnu. Ég vil segja henni það og fullvissa hana og þingheim allan um að það er engin þjónusta sem fellur niður öðruvísi en annað taki sannanlega við. Það er ekki svo, hvorki það sem hv. þingmaður nefnir sem lýtur að líknarþjónustu, rekstri sjúkrabíla né annað. Breytingar hafa orðið í ýmsum þessum efnum, en það er alls staðar þannig að meðan á millibilsástandinu stendur þá er það tryggt að þjónustan sé ekki skert. Ég vil nefna til að mynda ákvörðun SÁÁ, einhliða ákvörðun SÁÁ, um að segja sig frá þjónustu við unga notendur áfengis og fíkniefna (Forseti hringir.) undir 18 ára aldri, en SÁÁ hefur að minni beiðni sinnt þjónustunni síðan SÁÁ tók þessa ákvörðun, vegna þess að það er ekki boðlegt (Forseti hringir.)að það sé engin þjónusta fyrir þennan hóp í boði meðan(Forseti hringir.) hugað er að öðrum lausnum.