149. löggjafarþing — 5. fundur,  17. sept. 2018.

orkuöryggi þjóðarinnar.

[15:59]
Horfa

Arna Lára Jónsdóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda fyrir að vekja athygli á því mikilvæga máli sem raforkuöryggi á Íslandi er. Flestum hér inni er ljóst að flutningskerfið er mikið lestað og er afhendingaröryggi víða á landinu stefnt í hættu af þeim sökum. Mikið álag veldur enn frekari hættu á truflunum á raforkuflutningum, auk þess sem sveiflurnar geta og hafa valdið talsverðu tjóni hjá notendum.

Þess utan er staðan þannig á ákveðnum svæðum að línurnar eru ekki hringtengdar, eins og t.d. er á Vestfjörðum, eins og málshefjandi bendir réttilega á. Hið sama er upp á teningnum á Suðurnesjum þar sem Suðurnesjalína 1 er eina tenging Reykjanesskagans við meginflutningskerfi Landsnets og hafa bilanir á henni valdið straumleysi.

Slíkt er augljóslega ekki í lagi, m.a. með tilliti til þess að stærsti alþjóðaflugvöllur landsins er staðsettur þar. Svipuð staða er uppi á Snæfellsnesi. Að sama skapi er algjörlega óásættanleg sú staða sem uppi er hvað varðar flutningskerfi raforku á Vestfjörðum, ekki síst þar sem ljóst er að svæðið er ekki sjálfbært með raforku. Staðan er í rauninni sú að 70% af þeirri orku sem nýtt er á Vestfjörðum um vetrartímann eru flutt inn frá öðrum svæðum landsins og yfir 50% yfir sumartímann. Það er auðvitað ekki í lagi.

Flutningskerfi raforku er má segja algjört grundvallarkerfi fyrir okkur öll, hvort sem er í leik eða í starfi þurfum við á rafmagni að halda. Við þurfum að bregðast við orkuskiptum í samgöngum og aukinni rafmagnsnotkun heimila, veitna og fyrirtækja. Það er óásættanlegt að á árinu 2018 búi fyrirtæki og svæði við algjört óöryggi hvað varðar flutning á raforku og þann mikla kostnað sem því veldur. Við hljótum að vænta þess og krefjast að aukinn kraftur og hraði verði settur í uppbyggingu flutnings og dreifikerfa landsins og forgangsraða fjármagni þar sem staðan er verst.

Við verðum jafnframt að setjast yfir hvort ekki séu til raunhæfar leiðir til að flýta fyrir línulagningu. Það hlýtur að teljast nokkuð sérstakt að frá því að Landsnet var stofnað fyrir 13 árum hafi það ekki náð að leggja eina einustu raflínu til að tryggja afhendingaröryggi, ef frá eru taldir línusendar er tengjast Búðarhálsvirkjun og Þeistareykjavirkjun sem hafa ekkert með raforkuöryggi að gera. Það hlýtur að vera óásættanleg staða fyrir Íslendinga að þrátt fyrir að umframorka sé til í landinu sé ekki hægt að tryggja raforku. (Forseti hringir.) Á Akureyri er til að mynda ekki hægt að byggja upp iðnað þar sem ekki er hægt að nálgast öruggt rafmagn, eins og hv. málshefjandi vakti athygli á. Ástandið er svo alvarlegt á Akureyri að þar eru fyrirtæki sem hafa komið upp olíukötlum til rafmagnsframleiðslu og á Vestfjörðum er staðan sú að Landsnet sjálft (Forseti hringir.) hefur sett upp stórar dísilvélar sem keyrðar eru reglulega til að tryggja raforku á þeim svæðum. (Forseti hringir.)

Þetta hlýtur að vera umhugsunarverð staða á sama tíma og ríkisstjórnin hefur lagt fram metnaðarfull áform í loftslagsmálum. (Forseti hringir.) Raforkuóöryggi þessara svæða veikir samkeppnisstöðu þeirra og getur valdið því að fyrirtæki hugsi sig tvisvar um áður en þau staðsetja sig á þessum svæðum.

(Forseti (ÞórE): Forseti áminnir þingmenn góðfúslega um að virða ræðutíma.)