149. löggjafarþing — 5. fundur,  17. sept. 2018.

orkuöryggi þjóðarinnar.

[16:03]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Ég þakka málshefjanda, hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson, fyrir að hefja þetta mál til vegs og virðingar og þakka ráðherranum fyrir hans innlegg. Þetta er mál sem ég hef töluvert rætt og brennur svolítið á mínu skinni. Það hefur verið eitt af megináhersluatriðum í stefnu Miðflokksins að allir landsmenn hringinn í kringum landið sitji við sama borð þegar kemur að innviðaþjónustu. Þar eru raforkumálin að sjálfsögðu eitt af þeim stóru málum, sérstaklega afhendingaröryggi raforku.

Það er mjög sérstakt að í okkar fallega og hreina landi sem er ríkt af auðlindum með grænni orku, auk bestu tæknikunnáttu og reynslu þeirra sem í greininni starfa, skuli afhendingaröryggi raforku ekki vera meira en raun ber vitni.

Ég lærði og vann í rafvirkjun á sínum tíma og þekki málið vel frá þeirri hlið. Ég man eftir því í raflagnavinnunni að kaplar og vírar máttu ekki sjást en viðskiptavinurinn fór fram á að rofinn eða tengillinn skilaði samt sem áður því sem lagt var til. Þetta rifjast upp þegar hinir ýmsu hópar tala um sjónmengun, umhverfisáhrif og ósnortna náttúru. Það skal tekið fram að ég er umhverfis- og náttúruunnandi.

Þegar talað er um umhverfisleg áhrif aðgerða finnst mér ætíð vanta umræðuna um samfélagsleg áhrif. Að mínu áliti er það ein af ástæðum þess að afhendingaröryggi er ekki á betri stað en raun ber vitni. Hvar á landinu sem við búum þurfum við alltaf að sjá og verða vör við rafmagnslínur. Það þarf að hraða og tryggja flutning raforku um landið, það er eitt af skilyrðum þess að búseta og atvinnulíf geti þróast með sem eðlilegustum hætti í öllum landshlutum.