149. löggjafarþing — 5. fundur,  17. sept. 2018.

orkuöryggi þjóðarinnar.

[16:07]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Frú forseti. Orkuöryggi Íslands er áhugavert umræðuefni og margt gott hefur verið sagt um það nú þegar. En þetta snýst í mínum huga kannski fyrst og fremst um að ná jafnvægi í bókhaldinu. Orkumagn Íslands er takmarkað, það er ákveðin orkunýting, það er hlutfall af framboðinu og það þarf að ná jafnvægi. Þetta snýst um tvennt; að tryggja að nægt magn orku sé til staðar núna og að tryggja að nægt magn orku verði til staðar í framtíðinni.

Ég velti því fyrir mér um daginn hvernig húskynding fór fram áður fyrr. Það var ekki til allt of mikið af trjám og kol voru ekki flutt inn nema í litlu magni þannig að þá var auðvitað gengið á móbirgðir þegar hvalspik og annað var ekki í boði. Ástandið er sem betur fer betra í dag en við erum þó enn alfarið háð innflutningi á olíutegundum eins og bensíni og dísil á bíla og auðvitað varaaflgjafa, yfir í avgas og avtur á flugvélar og svartolíu á þau skip sem brenna enn þá svoleiðis. Svo eru staðir eins og Grímsey þar sem aflið kemur enn þá alfarið frá jarðefnaeldsneyti.

Þetta kemur til viðbótar raforkudreifikerfi sem er að flestu leyti gott og tryggir að mestu leyti það magn orku sem við þurfum en það mætti vera betra til framtíðar eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra.

Til að ná jafnvægi í bókhaldinu þarf að gera nokkra hluti. Fyrst þurfum við að draga úr notkun með skilvirkari vélum, skilvirkari aðferðum á borð við betri einangrun húsa og slíku, skilvirkari lífsháttum eins og aukinni notkun almenningssamgangna og svo hitt, að auka sjálfbærni okkar með því að nýta betur innlenda endurnýjanlega orkugjafa. Þetta tvennt er auðvitað ekkert sláandi og ég ætla að fara betur yfir möguleika okkar í seinni ræðu minni, en við þurfum almennt að halda því áfram sem við höfum verið að tala um síðustu áratugi og gera það betur og reyna jafnvel að gefa svolítið í. Í augnablikinu höfum við ekki það orkuöryggi sem við þurfum (Forseti hringir.) og það gæti orðið að vandamáli hvenær sem er.