149. löggjafarþing — 5. fundur,  17. sept. 2018.

orkuöryggi þjóðarinnar.

[16:14]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson fyrir að efna til þessarar umræðu. Það er vel við hæfi að fyrsta sérstaka umræða þessa vetrar snúi að landsbyggðinni. Það er brýnna en nokkru sinni fyrr að við þurfum að byggja upp innviðina, á öllu landinu að sjálfsögðu, en líka að þora að forgangsraða. Þora að forgangsraða á þau svæði sem þurfa raunverulega á auknu öryggi að halda, t.d. auknu afhendingaröryggi á sviði raforku.

Ég vil líka þakka hæstv. ráðherra fyrir hreinskilin svör. Ég veit að ráðherra hefur metnað til þess að byggja upp og gera enn betur, en ég leyni því þó ekki, sérstaklega eftir að hafa hlustað á aðra hv. þingmenn í stjórnarliðinu, að mér finnst ég greina örlítið misvægi, jafnvel ósætti um hvaða leið á að fara hvað þetta mál varðar. Það er kannski ekki undrunarefni að nú á þessum síðustu dögum erum við að verða vitni að því að þingmenn eru í óðaönn að hlaupa frá stjórnarsáttmálanum. En engu að síður er þetta mál það mikilvægt að ég tel brýnt að stjórnvöld sýni á spilin og tali skýrt. Mér finnst ráðherra vera að vinna að því eins og hún best getur.

Það er snúið þegar ríkisstjórnin er ekki samhent í þessu máli og við þurfum á samheldni að halda til þess að byggja upp innviðina. Byggja upp afhendingaröryggi og geta talað um forgangsröðunina á þá staði eins og á Vestfirði, á Akureyri, við erum líka að tala um Suðurnesin. Þetta gengur ekki óbreytt ef við ætlum að halda áfram að byggja upp öflugt og fjölbreytt atvinnulíf, hvort sem það er á sviði ferðaþjónustu, nýsköpunar o.s.frv., við þurfum að gera það.

Þess vegna þurfum við stjórnmálamenn að gefa fólki á þessum svæðum skýr svör. Ég gæti líka nefnt Teigsskóg, þó í allt öðru samhengi. Það er algjörlega óboðlegt að það mál sé búið að vera hér í þinginu jafn lengi og ég. Og það er mjög langur tími. Þetta er algjörlega óboðlegt. Við verðum að búa til þannig kerfi, þannig reglur að fólkið í landinu, hvar sem það býr, fái skýr svör fyrir framtíð sína, fyrir framtíð okkar.