149. löggjafarþing — 5. fundur,  17. sept. 2018.

orkuöryggi þjóðarinnar.

[16:17]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Frú forseti. Mig langar að byrja á að þakka hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson fyrir að hefja sérstaka umræðu um mikilvægi orkuöryggis þjóðarinnar. Við áttum langa umræðu hér sl. vetur um þessi mál, tókum fjögurra tíma umræðu um þessi mál í febrúar eða mars, um flutningskerfi sem snýr nákvæmlega að þeim hlutum sem við ræðum hér. Það er mjög ánægjulegt að sjá hvaða skref hafa verið tekin á undanförnum misserum í þessum málum. Fyrst var lögð fram þingsályktunartillaga sem sneri að ákveðnum hlutum í raforkumálum og strengjum og öðru árið 2015, og svo núna um flutningskerfi raforku árið 2018. Töluverður stórhugur er á næstu árum í framkvæmdum sem snúa að þessu máli og við sjáum að á Norður- og Austurlandi eru áætlaðar miklar framkvæmdir sem gerðar verða alveg á næstu árum með Hólasandslínu 3, Kröflulínu 3 og svo varðandi Blöndulínu. Þar er af ýmsu að taka.

Aðgengi að raforku í nægilegu magni með góðu afhendingaröryggi er undirstaða nútímasamfélags. Skortur á aðgengi að raforku hefur bitnað illa á hluta landsmanna, þá sérstaklega á ákveðnum landsvæðum á Norðurlandi, einkum í Eyjafirði, á Suðurnesjum og Vestfjörðum.

Þessi staða hefur hamlað atvinnuuppbyggingu og gert íbúum og fyrirtækjum erfitt fyrir í rekstri sínum, þeim til kostnaðarauka og hefur haft hamlandi áhrif á starfsemi þeirra.

Í því samhengi hefur í Eyjafirði verið talað um áratug glataðra tækifæra. Á svæðinu hafa íbúar og fyrirtæki búið við takmarkað afhendingaröryggi og gæði orkunnar hafa ekki verið fullnægjandi með tilheyrandi flökti og óáreiðanleika. Á síðustu tveimur árum hafa verið settar upp fjölmargar dísilrafstöðvar í Eyjafirði og hefur kostnaðurinn við þær farið yfir 100 milljónir, bara til að auka raforkuöryggi. Staðan er fullkomlega óviðunandi.

Síðasta vetur vann Lota ehf. skýrslu fyrir Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar um hvernig helst mætti bæta þá stöðu sem upp væri komin í Eyjafirði. Niðurstaða skýrsluhöfunda var að heppilegast væri að reisa varaaflsstöð á Dalvík. Kostnaðaráætlun var 500–1.000 milljónir, bara til að auka raforkuöryggi í Eyjafirði.

Það er mjög stuttur tími sem maður fær hér til að tala um mikilvægt mál, ég fæ bara að tala í tvær mínútur í þetta skipti (Forseti hringir.) um þessi mál. En eins og síðasta vetur hvet ég þingheim til að taka virkilega á þessu máli. Þetta er eitt af allra stærstu málunum.