149. löggjafarþing — 5. fundur,  17. sept. 2018.

orkuöryggi þjóðarinnar.

[16:21]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Ég hvet fundarmenn og þá sem um málið fjalla að blanda ekki saman lagningu háspennulína og orkuöryggi að öllu leyti. Við verðum að ræða háspennulínu yfir hálendið og taka tillit til umsagnaraðila eins og Landsnets. Þegar þingsályktunin var unnin síðasta vetur var ekki einrómur um þá umsögn.

Auðvitað eigum við að leggja rafmagn í jörð sé þess kostur. Við verðum líka að tryggja þriggja fasa rafmagn sem víðast. Það að hafa ekki aðgang að þriggja fasa rafmagni getur staðið í vegi fyrir eðlilegri uppbyggingu og nýsköpun í dreifbýli. Með öflugri orkudreifingu má stuðla að umhverfisvænni atvinnu, verðmætasköpun um allt land og draga úr olíubrennslu. Varaaflsstöðvar yrðu óþarfar. Veit ráðherra hver munurinn er á eins fasa og þriggja fasa rafmagni? Orkunýting er betri með þriggja fasa rafmagni og þriggja fasa mótorar nýta rafmagnið betur. Þeir eru minni um sig og ódýrari í innkaupum. Það má segja að þriggja fasa rafmagn sé umhverfisvænna.

Miðflokkurinn vill að ríkið setji eigandastefnu fyrir Landsvirkjun. Líta þarf á arð af orkuauðlindinni í samhengi við þau verðmæti sem iðnaður skapar. Það er ekki sjálfgefið að hámörkun arðs af orkuauðlindinni einni og sér hámarki þjóðarhag.

Af því að ég hef nokkrar sekúndur langar mig líka að lokum að taka aðeins undir það sem hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sagði áðan um það sem maður finnur að er í gangi innan ríkisstjórnarflokkanna, það virðast ekki vera (Forseti hringir.) alveg samstilltar raddir í þessum málum.