149. löggjafarþing — 5. fundur,  17. sept. 2018.

orkuöryggi þjóðarinnar.

[16:23]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir talaði hér um að hún hefði verið lengi á þingi og það heyrðist vel á máli hennar. Hún er lagin við að hræra upp í hlutum og reyna að reka fleyga ef það hentar og ágætt að heyra það líka hjá nýrri þingmönnum eins og hv. þingmanni sem talaði hér á undan mér.

Mér finnst þetta mál of mikilvægt til þess að við séum að fara með það niður á það plan og minni enn og aftur á þá góðu samstöðu sem náðist í hv. atvinnuveganefnd þar sem báðir hv. þingmenn sitja og tóku þátt í þeirri vinnu. Þar var algjör samhljómur um áherslurnar sem skyldu lagðar í stefnu um uppbyggingu flutningskerfis raforku og það var mjög ánægjulegt að eiga þátt í þeirri samvinnu við þá hv. þingmenn sem hér töluðu á undan mér og aðra sem skrifuðu svo undir nefndarálitið, því að nefndarálitið var aðeins eitt. Við vorum öll sammála um þetta.

Það er ánægjulegt að við getum náð saman um hvernig eigi að byggja upp flutningskerfið og hvernig við eigum að taka á þeim stóru vandamálum sem vissulega eru víða í kerfinu og sérstaklega á þeim svæðum sem eru hér undir í fyrirspurn hv. frummælanda.

Það eru fyrirhugaðar miklar framkvæmdir á kjörtímabilinu, háð því að vel gangi með ýmislegt. Eins og einhver hv. þingmaður kom hér inn á þá hefur það nú oft gerst að línulagnir hafa dregist. Ef vel gengur gætu þetta verið um 30 milljarðar en þetta eru mjög stórar framkvæmdir þannig að bara t.d. Kröflulína 3 og Hólasandslína 3 eru 14 milljarða kr. framkvæmdir. Þetta eru stórar tölur sem eru undir.

Í lokin langar mig, virðulegi forseti, af því að hér var spurt sérstaklega út í dísilrafstöðvar, að koma inn á mikilvægi þess að við eflum Orkusjóð, sem ég held að sé mjög nauðsynlegt að gera, sem styrkir sérstaklega verkefni til að fara út í hreinni og umhverfsivænni orku þar sem þess er kostur.